Ísafjarðarbær og Fjarðarbyggð bjóða ekki upp á neina frístundastyrki samkvæmt úttekt verðlagseftirlits ASÍ á frístundastyrkjum hjá 16 stærstu sveitarfélögum landsins.
Af þeim sveitarfélögum sem bjóða upp á slíka styrki árið 2020 og úttektin nær til, er Hafnarfjörður með hæstu styrkina, 54.000 krónur á barn en styrknum er skipt niður á mánuði þannig að mögulegt er að greiða tómstundir niður um 4.500 krónur á mánuði.
Þá eru styrkirnir lægstir í Borgarbyggð en þar fá börnin niðurgreiddar 20.000 krónur á ári.
Vestmannaeyjar bjóða upp á frístundastyrki fyrir lengsta aldursbilið en þar fá börn niðurgreidda frístundastyrki frá tveggja ára aldrei og allt þar til þau eru orðin átján ára. Akureyri býður upp á stystan tíma en þar fá börn á aldrinum sex til sautján ára niðurgreidda frístundastyrki.

Frístundastyrkir jafna tækifæri barna til tómstundaiðkunar
Frístundastyrkirnir eru ætlaðir til niðurgreiðslu á tómstundastarfi barna en rannsóknir sýna að þátttaka í tómstundastarfi hefur áhrif á vellíðan barna og unglinga auk þess sem sýnt hefur verið fram á forvarnargildi tómstundastarfs og er það því hagur samfélagsins að börn hafi aðgang að slíku starfi.
Tómstundir geta verið dýrar og eru fjölskyldur í misjafnri stöðu til þess að greiða fyrir þær. Því stuðla styrkirnir að því að börn geti tekið þátt óháð efnahag og félagslegum aðstæðum og jafna þannig tækifæri barna til tómstundaiðkunar.
Sveitarfélögin Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær og Reykjavík eru öll með styrki upp á 50.000 krónur á hvert barn en í Mosfellsbæ hækkar styrkurinn upp í 50.000 krónur fyrir þriðja og fjórða hvert barn.
Úttekt ASÍ nær eingöngu til frístundastyrkja sem foreldrar geta ráðstafað til að niðurgreiða tómstundir barna og ekki er tekið tillit til annarskonar stuðnings við tómstundastarf barna í formi lægra verðs á námskeiðum, ókeypis aksturs eða akstursstyrkja til foreldra sem keyra börn sín langan veg í tómstundir.
