Ísa­fjarðar­bær og Fjarðar­byggð bjóða ekki upp á neina frí­stunda­styrki sam­kvæmt út­tekt verð­lags­eftir­lits ASÍ á frí­stunda­styrkjum hjá 16 stærstu sveitar­fé­lögum landsins.

Af þeim sveitar­fé­lögum sem bjóða upp á slíka styrki árið 2020 og út­tektin nær til, er Hafnar­fjörður með hæstu styrkina, 54.000 krónur á barn en styrknum er skipt niður á mánuði þannig að mögu­legt er að greiða tóm­stundir niður um 4.500 krónur á mánuði.

Þá eru styrkirnir lægstir í Borgar­byggð en þar fá börnin niður­greiddar 20.000 krónur á ári.

Vest­manna­eyjar bjóða upp á frí­stunda­styrki fyrir lengsta aldurs­bilið en þar fá börn niður­greidda frí­stunda­styrki frá tveggja ára aldrei og allt þar til þau eru orðin á­tján ára. Akur­eyri býður upp á stystan tíma en þar fá börn á aldrinum sex til sau­tján ára niður­greidda frí­stunda­styrki.

Frístundastyrkir árið 2020.
Mynd/Aðsend

Frí­stunda­styrkir jafna tæki­færi barna til tóm­stunda­iðkunar

Frí­stunda­styrkirnir eru ætlaðir til niður­greiðslu á tóm­stunda­starfi barna en rann­sóknir sýna að þátt­taka í tóm­stunda­starfi hefur á­hrif á vel­líðan barna og ung­linga auk þess sem sýnt hefur verið fram á for­varnar­gildi tóm­stunda­starfs og er það því hagur sam­fé­lagsins að börn hafi að­gang að slíku starfi.

Tóm­stundir geta verið dýrar og eru fjöl­skyldur í mis­jafnri stöðu til þess að greiða fyrir þær. Því stuðla styrkirnir að því að börn geti tekið þátt óháð efna­hag og fé­lags­legum að­stæðum og jafna þannig tæki­færi barna til tóm­stunda­iðkunar.

Sveitar­fé­lögin Mos­fells­bær, Sel­tjarnar­nes, Kópa­vogur, Garða­bær og Reykja­vík eru öll með styrki upp á 50.000 krónur á hvert barn en í Mos­fells­bæ hækkar styrkurinn upp í 50.000 krónur fyrir þriðja og fjórða hvert barn.

Út­tekt ASÍ nær ein­göngu til frí­stunda­styrkja sem for­eldrar geta ráð­stafað til að niður­greiða tóm­stundir barna og ekki er tekið til­lit til annars­konar stuðnings við tóm­stunda­starf barna í formi lægra verðs á nám­skeiðum, ó­keypis aksturs eða aksturs­styrkja til for­eldra sem keyra börn sín langan veg í tóm­stundir.

Upphæð frístundastyrkja og aldur barnanna.
Mynd/Aðsend