„Ég bind miklar vonir við vinnu að­gerða­hóps sem verið er að koma í gang. Þessi hópur er meðal annars skipaður full­trúum frá Land­spítala, Sjúkra­húsinu á Akur­eyri, Heil­brigðis­stofnun Vestur­lands og Klíníkinni,“ segir Willum Þór Þórs­son heil­brigðis­ráð­herra. Hópurinn eigi að ná heild­rænt utan um þá á­skorun sem felist í að stytta bið­lista eftir lið­skipta­að­gerðum.

„Við ætlum okkur að koma þessu mikil­væga máli í réttan far­veg,“ segir ráð­herra.

Heil­brigðis­stofnun Vestur­lands á Akra­nesi hefur undir­búið nýja skurð­stofu fyrir lið­skipta­að­gerðir. Af­kasta­geta mun tvö­faldast með því og fram­kvæmdar verða um 430 að­gerðir á ári.

„Það þarf bæði að tryggja gæði þjónustunnar og að allir sitji til jafns við borðið. Þeir sem þurfa á þessum að­gerðum að halda og þeir sem fram­kvæma þær,“ segir Willum. Hópurinn muni meðal annars meta og inn­leiða til­lögur sem komu fram í skýrslu starfs­hóps um gæða­mál tengd lið­skipta­að­gerðum.

„Hópnum er því ætlað að inn­leiða bæði gæða­verk­lag og út­færa fram­tíðar­fyrir­komu­lag lið­skipta­­að­gerða. Fyrir­komu­lag sem dregur úr bið, minnkar sjúk­dóms­byrði, tryggir jafnt að­gengi og jafn­ræði í greiðslu­fyrir­komu­lagi óháð því hvar að­gerðin verður fram­kvæmd innan heil­brigðis­kerfisins. Það á enginn að þurfa að fara til út­landa.“

Býr í Reykjavík en er á biðlista á Akureyri

Soffía Kára­dóttir býr í Reykja­vík en var ráð­lagt að fara á bið­lista á Akur­eyri, því þar væri biðin ekki nema rúmt ár, saman­borið við tvö til þrjú ár í Reykja­vík.

„Mér finnst frá­bært að geta farið á bið­lista á Akur­eyri en fá­rán­legt að það sé ekki löngu búið að semja við Klíníkina, en það hefur verið pólitískt mál,“ segir Soffía. Hún sé til­búin að fara hvar sem er í að­gerð, í Reykja­vík, á Akur­eyri eða Akra­nesi. „Ég væri til í að fara hvert sem er, bara til að lina þjáningarnar.“

Soffía Káradóttir bíður eftir að komast í liðskiptaaðgerð.
Fréttablaðið/Stefán

Soffía hefur farið viku­lega til sjúkra­þjálfara síðustu fjögur árin og heim­sækir bæklunar­lækni á sex til átta vikna fresti. „Eftir að­gerð á öðru hnénu bíður að­gerð á hinu því það er bara ekki alveg eins slæmt,“ segir hún og spyr hvort setja eigi málið í nefnd og láta það gleymast.

„Úr­ræðin eru alveg til staðar og sumt er hægt að gera strax og annað þarf að bíða en það þarf bara að létta á þessu, koma fólki út í at­vinnu­lífið og svo­leiðis,“ segir Soffía.