Á morgun rennur út frestur til að skila skatt­fram­tali til Ríkis­skatt­stjóra. Ó­líkt fyrri árum þá verður ekki boðið upp á við­bótar­frest í ár eins og hefur verið. Þá hefur eins ekki verið boðið upp á að fá að­stoð í húsi við gerð skatt­fram­talsins vegna CO­VID.

Elín Alma Arthurs­dóttir, vara­ríkis­skatt­stjóri, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að þau sem ekki skili á morgun verði ekki refsað strax um helgina nema þau hafi í­trekað áður skilað fram­tali sínu seint.

„En skilið eins fljótt og þið getið. Við erum eins sveigjan­leg og við getum verið varðandi það en hvetjum alla að halda á­fram að skila þótt þau nái ekki að klára á morgun. Það gerist lítið ef það er ekki í­trekað að menn séu seinir,“ segir Elín Alma og tekur fram að fólk sé ekki beitt á­lags­beitingu nema það sé í­trekað seint.

Hún segir að í morgun hafi um 160 þúsund kenni­tölur verið búin að skila sínu fram­tali og í heildina búist þau við um 307 þúsund kenni­tölum. Það sé því ríf­lega helmingur sem sé búinn að skila.

Hún á þó alls ekki von á því að allir þessir 307 þúsund verði búin að skila á morgun því að ein­hver tugi þúsunda sé með þjónustu bókara eða endur­skoðanda sem hafi frest þar til í apríl. Hlut­fall þeirra sem skatturinn býst við því að skili á morgun er því mun hærra en um helmingur.

Elín Alma segir að fólk eigi að skila eins fljótt og það getur nái það ekki að ljúka því fyrir miðnætti á morgun.
Mynd/Skatturinn

Ekki hægt að ná inn í síma

Elín segir að það sé mjög mikið hringt til þeirra til að fá að­stoð og að þau séu með 20 til 30 starfs­menn í því að svara sím­tölum. Erfitt sé að ná inn í dag en bendir á að í fyrsta skipti hægt að panta sím­tal hjá þeim núna.

„Það hefur verið gríðar­lega mikið notað og í dag hafa borist 200 beiðnir frá því að það var hætt að svara í gær, En fólk þarf ekkert að óttast, það verður hringt,“ segir Elín.

Hún segir að hringt sé á milli 9 og 15.30 og að það sé reynt tvisvar. Eftir það detti fólk af listanum og þyrfti því að panta sér sím­tal aftur.

„Þetta er í fyrsta skipti en hefur gengið mjög vel,“ segir Elín.

Hægt er að skila fram­tali hér og panta sím­tal. Frestur er til mið­nættis á morgun, 12. mars.