Banda­ríski rit­höfundurinn Robert Spencer full­yrðir í nýrri grein að sam­kvæmt lög­reglu­skýrslu ís­lensku lög­reglunnar verði enginn á­kærður fyrir að hafa eitrað fyrir honum í Reykja­vík í maí árið 2017. Í greininni nafn­greinir hann þrjá af fjórum Ís­lendingum sem hann sakar um að hafa eitrað fyrir sér en fjórði þeirra var leigu­bíl­stjóri.

Spencer mætti hingað til lands í maí árið 2017 og sagði síðar frá því í grein á Front­pa­gemag.com að hann hefði eytt nóttinni þann 15. maí á sjúkra­húsi. Robert kom hingað til lands á ráð­stefnu þá helgina og er heims­frægur fyrir harð­vítug skrif sín gegn íslam og hefur hann í­trekað varar við því sem hann kallar „íslams­væðingu“ vestur­landa.

Hann segir að sér hafi verið byrlað eftir fyrir­lesturinn á Bar Ananas. Hann lýsti því þannig í greininni a ungur maður hefði gengið að sér, heilsað sér og lýst yfir að­dáun sinni á Spencer. Þar næst hafi annar maður gengið að honum, tekið í höndina á honum og sagt: „Hoppaðu upp í rass­gatið á þér.“

Því næst hafi hendur hans byrjað að skjálfa, hann hafi orðið dofinn í and­litinu, kastað upp og upp­lifað hraðan hjart­slátt. Spencer kærði málið til rann­sóknar­deildar lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu og nú segir Spencer að málið hafi verið látið niður falla.

Í nýrri grein sinni vitnar Spencer í lög­reglu­skýrslu um málið sem hann segist hafa fengið á grund­velli upp­lýsinga­laga. Þar lýsir hann meðal annars sam­skiptum að­stoðar­ríkis­sak­sóknara og héraðs­sak­sóknara og því að það hafi sést hvernig annar Ís­lendinganna hafi rétt hinum ílát inni á bað­her­bergi. Hann hafi svo farið inn á staðinn að nýju og sett eitt­hvað í glas í höndum sér og hrært í því.

Gagn­rýnir lækninn harð­lega

Full­yrðir Spencer að mennirnir tveir hafi pantað þrjú glös og síðar fært sér glas sem ein­hverju hafði verið komið í. Lög­reglan hafi lýst því þannig að það væri hið eitraða glas. Á þeim grund­velli hefði að­stoðar­ríkis­sak­sóknari talið lík­legt að mennirnir yrðu á­kærðir.

Spencer lýsir því næst hvernig málið hafi þá verið sent til héraðs­sak­sóknara 25. ágúst 2017. Em­bættið hafi sjö mánuðum síðar, í apríl 2018 farið fram á að rann­sókn yrði fram haldið og að það vantaði tvo hluti. Bréf frá lækninum sem tók við Spencer og blóð- og þvag­sýni frá spítalanum. Það hafi hins vegar ekki verið til staðar og því hafi em­bættið látið rann­sóknina niður falla.

Í grein sinni gagn­rýnir Spencer lækninn sem tók á móti honum á Land­spítalanum harð­lega og segir hann hafa gert lítið úr á­hyggjum sínum vegna málsins. Segir hann að læknirinn sé harður vinstri maður í greininni.

„Héldu þeir virki­lega að spítalinn myndi halda í þessi sýni í ellefu mánuði? Var þetta leið héraðs­sak­sóknara til að eyði­leggja málið? Biðu þeir í þessa mánuði til að tryggja að sýnin yrðu ekki til­tæk?“ skrifar Spencer meðal annars.

Full­yrðir Spencer að lög­reglu­skýrslan og lækna­skýrslur sýni fram á að Ís­lendingarnir eigi að hvera í fangelsi. Þá segir hann að þar sem annar mannanna hafi séð um rekstur Priksins, ætti að loka bæði Prikinu og Bar Ananas af heilsu­fars­á­stæðum.

Segir hann að ekkert af þessu muni gerast þar sem mennirnir séu til vinstri í pólitískum skoðunum. „Að minnsta kosti er núna það sem gerðist á allra vit­orði, rétt eins og vilji ís­lenskra stjórn­valda til að láta það bitna á manni sem hefur ekki sam­þykktar pólitískar skoðanir.“