„Það eru allir mjög slegnir og mikið óvissuástand. Heilu þorpin hafa verið rýmd,“ segir Kristín Halldórsdóttir, sem býr í Königswinter Oberpleis nærri Bonn og ekki langt frá Ahrweiler, Euskirchen, Erftstadt og Schuld, sem urðu einna verst úti í hamfaraflóðunum sem kostað hafa yfir eitt hundrað manns lífið í Þýskalandi.

„Fólk veit ekki hvort vinir og vandamenn hafi verið í húsunum sem eyðilögðust og fólkið sé látið þar eða í fríi í útlöndum. Enginn veit í rauninni enn þá hvað margir létust,“ segir Kristín.Að því er Kristín segir er rafmagn og símasamband ýmist ekki gott eða algjörlega farið.„Þar sem straumur fór af öllu þurfti að flytja alla sjúklinga úr sjúkrahúsi á annað sjúkrahús. Það þurfti að bera sjúklingana í rúmunum niður stiga því lyftur virkuðu ekki. Í fréttunum var viðtal við gamla konu sem líkti eyðileggingunni við ástandið í seinni heimsstyrjöldinni,“ segir Kristín, sem segir úrkomuna hafa verið gífurlega. „Ég er búin að búa hér síðan 1993 og aldrei upplifað aðra eins rigningu. Það varð allt á floti hér á augabragði.“

Að minnsta kosti 120 manns hafa látist í Vestur-Evrópu vegna hamfaraflóðanna, þar af hundrað í Þýskalandi og tuttugu í Belgíu. Flóðin hafa einnig náð til Lúxemborgar og Hollands. Rín og fleiri stórfljót hafa flætt yfir bakka sína vegna mestu úrhellisrigningar síðustu öldina og hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu. Yfirvöld í þýska sambandsríkinu Rínarlandi-Pfalz segja að allt að 1.300 manns séu ófundnir eftir hamfarir í héraðinu Ahrweiler.

Filippus Belgakonungur fór í heimsókn til bæjarins Chaudfontaine, sem hefur orðið fyrir gríðarlegu tjóni vegna flóðanna, á fimmtudaginn til að votta hinum látnu virðingu sína ásamt Matthildi Belgadrottningu. „Við erum enn að bíða eftir endanlegu mati en þessi flóð kunna að vera þau verstu sem landið okkar hefur nokkurn tímann orðið fyrir,“ sagði forsætisráðherrann, Alexander De Croo.

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, taldi að flóðin væru loftslagsbreytingum um að kenna. „Við getum aðeins haldið böndum á atburðum sem þessum þegar við ráðumst í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum.“ Loftslagsvísindamenn eru á sama máli um að aukinn hiti geti leitt til aukinnar og ofsafengnari úrkomu.