Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, segir augljósa þreytu komna í bæði rússneska og úkraínska hermenn en að á sama tíma sé mikil óvissa með Pútín því enginn viti hversu langt hann sé tilbúinn að fara með þetta. Hún segir að Ísland muni halda áfram að styðja við úkraínska flóttamenn sem hingað koma en að erfitt sé að segja hversu margir nákvæmlega myndu koma hingað. Þórdís Kolbrún var gestur í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar ræddi hún innrás Pútíns í Úkraínu.
Kristján Kristjánsson, stjórnandi þáttarins, spurði Þórdísi út í orð pólska sendiherrans í viðtali við Fréttablaðið um helgina en hann sagði að ef að Pútín myndi ráðast inn í landið myndu þeir taka á móti honum en sagði það verða vandamál að ef Pútín ráðist inn í Finnland, því Finnar eru ekki aðilar að NATO.
Þórdís Kolbrún segist sjálf hafa spurt sig þessarar spurningar og sagði NATO hafa talað skýrt um að þau taki ekki beint þátt í átökum sem ekki eru innan bandalagsins. Finnar eru ekki aðili að NATO en eru náinn samstarfsaðili.
„Ég þori einfaldlega ekki að segja til um það en það yrði augljóslega mjög sársaukafullt fyrir úkraínsku þjóðina,“ sagði Þórdís Kolbrún en árétti samt að Finnar og Svíar eru ekki aðili að bandalaginu.
Þórdís sagði hættuna vera til staðar en að það væri erfitt fyrir utanríkisráðherra að tjá sig um þessi mál.
Margt getur farið úrskeiðis
Hún sagði mikinn einhug meðal utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra að koma úkraínsku þjóðinni til aðstoðar en að það væri mjög ólíkt innan þjóðanna og almennings hverrar þjóðar þær skoðanir á því hvernig sú aðstoð eigi að vera.
„Enginn veit hvað Pútín er tilbúinn að ganga langt,“ sagði Þórdís og að þetta væri erfitt fyrir fólk því það er ekki mikil bjartsýni fyrir fólk eins og staðan er núna.
Hún sagði svo margt geta farið úrskeiðis, bara óvart og nefndi sem dæmi þreytu innan rússneska hersins sem hefur verið talað um. En einnig meðal úkraínskra ráðamanna væri ákallið orðið sterkara og meira núna þegar rúmur mánuður er liðinn af átökunum.
Þórdís sagði aðdáunarfullt og sársaukafullt á sama tíma að horfa a úkraínsku þjóðina sem berst enn með miklum móði.
Spurð um samskipti þeirra við rússnesk yfirvöld segir Þórdís þau mjög takmörkuð. Hún sagði að þau hafi rætt við sendiherrann en að annars fylgi þau öðrum þjóðum. Hún segist skilja reiði fólks gagnvart því að hann sé enn hér en að diplómatísk samskipti séu mikilvæg á friðar- og stríðstímum.
Hún sagði að þótt friðarviðræður væri ekki að ná neinum markmiðum núna þá þyrfti átökunum að ljúka einhvern veginn.
„Rússland er og verður þarna,“ sagði Þórdís og að sama hvað gerist þá munum við þurfa að eiga við þau einhvers konar samskipti sama hvernig fer. Hún ræddi enn frekar okkar samskipti við Rússa en þau tóku sem dæmi við formennsku af okkur í Norðurskautsráðinu í fyrra.
„Guði sé lof að þessi ákvörðun var tekin árið 1949“
Þórdís Kolbrún talaði einnig um þjóðaröryggisáætlun okkar og ástand heimsins væri breytt með þessari innrás og að Íslendingar þurfi mögulega að endurskoða sína stöðu og sínar varnir, sérstaklega með tilliti til landfræðilegrar stöðu okkar. Það væri okkur til gagns en líka NATO
„Við þurfum að vera tilbúin að gera það sem þarf til að bregðast við algerlega breyttri heimsmynd,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Spurð um veru Íslands í NATO bendi Kristján á að þjóðin hafi aldrei verið spurð um það hvort hún vilji vera þarna en Þórdís sagðist ekki hrædd að eiga það samtal við þjóðina.
„Guði sé lof að þessi ákvörðun var tekin árið 1949,“ sagði Þórdís og að henni hefði aldrei órað fyrir því að árið 2022 þyrfti hún að velta því fyrir sér hvernig framtíð barnanna hennar yrði.
Spurð hvort hún sæi fyrir sér að okkar þátttaka innan NATO verði aukin sagði Þórdís að hún gerði frekar ráð fyrir því að samskiptin myndu aukast og nefndi þá sérstaklega samskipti utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra. Hún sagði að hér yrði ekki byggður upp her en að hér væru ákveðnir möguleikar til viðbragða. Hún benti þó á að hér þurfi að bæta netöryggi og að hér væri hægt að byggja upp þekkingu sem gæti nýst bandalaginu.
Þórdís Kolbrún og Kristján töluðu einnig um ESB og EES samninginn og sagðist Þórdís Kolbrún þeirrar skoðunar að Íslendingum sé betur borgið utan sambandsins. Spurð hvort að það eigi að spyrja þjóðina að því sagði Þórdís að hér væri þing og ef að það væri ekki stuðningur innan meirihluta á þingi eða ríkisstjórnar fyrir ákvörðuninni þá ætti ekki að gera það.