Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stefnu sína í jarðamálum hafa skilað árangri. Markmiðið hafi verið að koma í veg fyrir of mikla samþjöppun lands á fárra hendur að því er fram kemur í Facebook-færslu Katrínar.

Máli sínu til stuðnings deilir forsætisráðherra frétt Fréttablaðsins um að breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe sé hættur að kaupa land á Íslandi.

Þar segir að hann vilji ekki brjóta ný lög um jarðakaup hér á landi og vísar til nýsamþykktra laga sem banna jarðakaup erlenda aðila nema með ströngum undantekningum.

Katrín segir merkilegt að enginn úr stjórnarandstöðunni hafi treyst sér til að styðja frumvarp hennar um breytingar á jarðalögum. Sem betur fer hafi það þó orðið að lögum.

Lögin fjalli í grunninn um að tryggja réttláta auðlindanýtingu og að enginn einn aðili eða aðilar honum tengdir geti náð yfirráðum yfir of miklu landi.