Rit­höfundurinn og blaða­maðurinn Valur Gunnars­son er staddur í Kænu­garði og hann segir að þrátt fyrir stríðs­á­standið í Úkraínu sé allt orðið undar­lega venju­legt í höfuð­borginni.

„Mann­skepnan hefur ó­trú­lega hæfi­leika til að að­lagast að­stæðum og hér er voða lítið sýni­legt um átök, þótt það séu ein­hverjir her­menn á götunum og út­göngu­bann að nóttu til,“ segir Valur. „Það er enginn að kippa sér upp við það. En það er allt annað á­stand í Donbas og flótta­menn eru að koma þaðan.“

Á­hyggjur af kjarn­orku­verinu

Valur var í Odesa fyrir tveimur vikum og segir and­rúms­loftið þar hafa verið mun spennu­þrungnara, enda loft­varna­kerfið þar ekki eins öflugt og borgin nær víg­stöðvunum. Úkraínu­menn hafi fagnað sam­komu­laginu um kornút­flutninga við Rússa en van­traustið gagn­vart Rússum sé gríðar­legt.

„Þeir voru ný­búnir að skrifa undir en á­kváðu samt að sprengja höfnina til að minna á sig,“ segir Valur. „Þetta með korn­flutningana skiptir kannski meira máli í al­þjóð­legu sam­hengi. Hér hefur fólk auð­vitað miklar á­hyggjur af á­tökunum við kjarn­orku­verið í Za­porízjzja.“

Að sögn Vals er al­talað meðal Úkraínu­manna að HIMARS-eld­flauga­kerfið sem úkraínski herinn fékk frá Banda­ríkjunum sé svo ná­kvæmt að það geti hæft Rússa nánast hvar sem er og að þess vegna hafi Rússar leitað skjóls í kjarn­orku­verinu, þar sem Úkraínu­menn þora ekki að skjóta á þá. „En svo hefur ein­hver samt skotið, sem er eigin­lega galið.“

Kjarn­orku­verið í Za­porízjzja, hið stærsta í Evrópu, varð fyrir sprengju­á­rásum um helgina en hvorki Úkraínu­menn né Rússar hafa gengist við að bera á­byrgð á þeim. Verið er undir stjórn Rússa og því segist Valur ekki sjá hvaða á­vinning þeir ættu að hafa í því að ráðast á það. Á hinn bóginn hefðu Úkraínu­menn heldur ekki á­vinning af því að breyta landinu í kjarn­orku­eyði­mörk. „Síðan er alltaf mögu­leiki í stríði að þetta hafi verið ó­vart og að enginn hafi ætlað að gera þetta. Zelen­skyj og Úkraínu­menn vilja náttúr­lega að kjarn­orku­verið sé lýst hlut­laust svæði, sem það er ekki á meðan rúss­neski herinn er þar. Báðir aðilar virðast nú vera á því að hleypa ein­hverjum eftir­lits­mönnum inn til að skoða þetta.

Verksummerki loftárása í Kænugarði.
Mynd/Aðsend

Þriðji fasinn hafinn

Valur segir að í augum Úkraínu­manna sé „þriðji fasi“ inn­rásarinnar hafinn. Sá fyrsti hafi aðal­lega verið við varnir Kænu­garðs og annar mest í austur­hluta landsins, þar sem Rússar hafa sótt hægt en stöðugt fram undan­farnar vikur. Sá þriðji verði í gagn­sókn Úkraínu­manna í suður­hlutanum, þar sem þeir vonast til að endur­heimta borgina Kher­son. Valur telur þetta ekki ó­raun­hæft mark­mið í ljósi þess hve vel HIMARS-flaugarnar hafa reynst Úkraínu­mönnum.

„Í Kyjív er maður ekki að sjá að menn séu ná­lægt því að gefast upp. Það er enginn vöru­skortur og ungir karl­menn eru að vinna um allt í búðum og við hvað sem er. Herinn er ef eitt­hvað er með fleiri heldur en hann þarf.“

Valur segir að við­horf Úkraínu­manna til heims­málanna ráðist nú nær al­farið af inn­rásinni. „Þeim er sama um skandalana hans Boris John­son, þau elska hann því hann hefur stutt þau. Þeim er illa við Armeníu en vel við Aserbaís­jan. Allt miðast við þetta. Þau blaka fánum stuðnings­ríkja eins og Banda­ríkjanna og jafn­vel Noregs, minna Frakk­lands og Þýska­lands.“

Úkraínumenn hafa fundið ný not fyrir rússneska fánann.
Mynd/Aðsend