Fann­ey Benja­míns­dóttir, há­skóla­nemi, og Pétur Hjör­var Þor­kels­son, réttinda­fræðslu­full­trúi, komust að því tveimur dögum eftir fæðingu frumburðar síns að hann væri með tólf tær. „Þegar hann fæddist var ég ekki að spá í því að telja á honum tærnar og það er greini­lega ekki eitt­hvað sem læknar gera eins og maður sér í bíó­myndunum,“ segir Fann­ey hlæjandi.

Ný­bökuðu for­eldrarnir fengu þær fréttir heil­brigður strákur væri kominn í heiminn og voru að vonum himin­lifandi. „Daginn eftir kom svo ljós­móðir og tók fótafar af honum og var frekar spennt þegar hún spurði okkur hvort við hefðum tekið eftir því að hann væri með auka­tá.“ Á fótafarinu voru greini­lega för eftir sex litlar tær. „Hinar ljós­mæðurnar héldu að ljósan okkar hefði gert fótafarið svo klunnalega að hún hefði klínt auka blekblett á það.“

Það tók for­eldrana smá­stund að með­taka þær upp­lýsingar að sonurinn væri með 11 tær. „Ég hugsaði bara ha? er barnið mitt ekki ná­kvæm­lega eins og það á að vera?“ Fann­ey lýsir því að um það bil mínúta hafi liðið þar sem hún velti fyrir sér hvaða þýðingu þetta myndi hafa. „Svo á­kváðum við að okkur þætti þetta bara mjög fyndið og sendum á okkar nánasta fólk að sonur okkar væri kominn í heiminn og að hann hafi of­metnast að­eins á með­göngunni og væri með ellefu tær.“

Tási litli er síbrosandi og veigrar sér ekki við myndatökum.
Fréttablaðið/Ernir

Fundu aðra tá

Daginn eftir var drengurinn skoðaður af lækni og Fann­ey og Pétur bentu honum á að sonur þeirra væri með auka­tá og spurðu út í það. „Læknirinn kippti sér ekkert upp við þetta og sagði að svona kæmi fyrir og væri venju­lega hið minnsta mál.“

Það var ekki fyrr en daginn eftir að fum­burðurinn hafði verið skoðaður hátt og lágt að Fann­ey fór að skoða tærnar nánar. „Ég fór að velta fyrri mér hvorum megin auka­táin væri þegar sé ég að þær væru ekki ellefu heldur tólf.“

Parið þurfti þá að leggjast í að leið­rétta upp­lýsingar sem sendar höfðu verið á nánustu vini og ættingja. „Þetta var ó­trú­lega skrítið, sér­stak­lega þar sem það héldu ó­trú­lega margir að ég hafi verið að grínast með þessar tær.“

Hamingju­óskum rigndi yfir litlu fjöl­skylduna á­samt stöku fyrir­spurn um sann­leiks­gildi fréttanna. „Fólk var að spyrja hvort hann væri í al­vöru með ellefu tær og ég þurfti þá að svara neitandi enda höfðum við fundið aðra tá,“ segir Fann­ey og skellir upp úr.

Við fyrstu sýn virðist ekkert athugavert vera við litlu tærnar.
Fréttablaðið/Ernir

Tærnar hluti persónuleikans

„Nánast um leið og við vorum búin að stað­festa að barnið okkar væri með tvær litlu tær á hvorum fæti gat ég ekki í­myndað mér neitt annað en að eiga tólf táa barn.“Til­hugsunin um að eiga barn með að­eins tíu tær er stór­furðu­leg að mati Fann­eyjar.

„Tærnar eru orðnir hluti af hans per­sónu finnst manni,“ segir Fann­ey. „Okkur fannst þetta allt svo fyndið að við byrjuðum að kalla hann Tása og það festist svo­lítið við hann.“ Þau hitti enn fólk sem spyr hvernig Tási hafi það þrátt fyrir að hann hafi hlotið nafn fyrir um það bil ári.

Hún viður­kennir að sjálf kalli hún hann stundum enn þá Tása. „Hann fékk ekki nafn fyrr en hann var tveggja mánaða vegna þess að við gátum ekki á­kveðið okkur hvað hann átti að heita.“ Á­stæðan hafi verið að nafnið Tási passaði svo vel. „Við vorum í fullri al­vöru farin að ræða nafnið Tómas Ási, en á­kváðum að fara ekki þá leið.“

For­eldrar Tása litla hafa þó litlar á­hyggjur af því að nafnið muni festast að ei­lífu. „Ég hef enga trú á því að hann verði ein­hvern tímann ráðinn í vinnu og að yfir­maður hans muni kalla hann Tása,“ segir Fann­ey kímin.

Jákvæð viðbrögð

Við­brögðin við syninum og öllum tánum hans hafa verið yfir­gnæfandi já­kvæð frá upphafi. Fólk hafi sýnt óhefðbundnum táfjöldanum mikinn á­huga og for­vitni við hvert tækifæri. „Ég hef alveg lent í því að hitta ein­hvern sem ég þekki í sundi og það fyrsta sem er gert er að kíkja á tærnar hans,“ bendir Fann­ey á. Fólk viti ein­fald­lega ekki hvort það eigi að trúa þessu eða hvernig það líti út að vera með fleiri en tíu tær.

„Það sem hefur komið mér mest á ó­vart er hvað allir virðast eiga ein­hverja sögu um fjöl­skyldu­með­limi eða kunningja með fleiri putta og tær en gengur og gerist.“

Sjálf hafi Fanney aldrei hitt eða heyrt um neinn af þeim fyrr en daginn eftir að sonur hennar fæddist. Ekki virðist vera mikið rætt um auka­tær og fingur á opin­berum vett­vangi að mati Fann­eyjar.

Fanney og Pétri finnst tilhugsunin um að eiga barn með aðeins tíu tær vera stórfurðuleg.

Hálfguðir með fleiri tær

„Margir eru samt með kenningar um að auka­tær þýði að hann verði ó­trú­lega góður dansari eða sund­maður eða eitt­hvað þess háttar.“

Einnig eru til staðir í öðrum heims­álfum þar sem börn sem fæðast með fleiri tær eða fingur eru talin blessuð af guðunum. „Þar fá þau sér­stakan sess í sam­fé­laginu sem ein­hvers­konar hálf­guðir.“ Því miður hefur sá siður enn ekki komist á hér á landi.

„Eina undar­lega at­huga­semdin sem við höfum fengið um þetta er að það þyki kannski ekki eðli­legt að viður­kenna að barnið manns sé eitt­hvað öðru­vísi.“ Það kom hins vegar aldrei til greina hjá Fann­eyju og Pétri að leyna þessum litlu tám enda hafi þau mjög gaman af þeim. „Við erum greini­lega ekkert sér­stak­lega viðkvæmt fólk.“

Fann­ey varð fremur hvumsa þegar kunningi benti henni á að það ætti að drífa í því að senda barnið í að­gerð þar sem enginn ætti að þurfa upp­lifa að vera ólíkur öðrum. „Mér finnst alls ekki rétt­mætt að láta taka tærnar á þeim for­sendum að það sé slæmt að vera ekki eins og allir hinir. Það er ekki eitt­hvað sem ég myndi vilja ala hann upp við.“

Þrátt fyrir það hefur nú komið í ljós að það þurfi að fjarlægja litlu tærnar. „Litlu aukatærnar eru farnar að valda smá vand­ræðum.“ Auka­tærnar ýta litlu tánum undir fótinn þannig að Tási hefur þróað með sé heil­kennið krullutá (e. cur­ly toe) sem veldur því að hann getur ekki gengið í skóm. „Sem er mjög flókið þegar maður býr á Ís­landi.“ Ef fjöl­skyldan væri bú­sett í hlýrra landi hefði Tási mögulega komist upp með að ganga í sandölum án hrak­falla næstu misserin.

Skómál flækjast töluvert þegar tærnar eru tólf.
Fréttablaðið/Ernir

Sætt vandamál

Hinn glaðlyndi Tási fæddist því miður í landi rigningar og slabbs og þar sem hann er nú byrjaður í leikskóla skapast sí­aukin þörf á að leysa t­ávandann. „Hann er byrjaður að labba en við getum ekki leyft honum að spreyta sig á því utan­dyra.“ Þó hafi verið fest kaup í svo­kölluðum polla­sokkum sem Tási klæðist stöku sinnum úti. „Þetta er náttúru­lega alveg ó­trú­lega fyndið og sætt vanda­mál.“
For­eldrunum þykir leiðin­legt að það þurfi að taka tærnar og munu sjá mikið eftir þeim. „Ef þetta væri ekki spurning um nauð­syn hefðum við viljað halda þeim og leyfa honum að taka þessa á­kvörðun sjálfur seinna meir.“

Að lækna­ráði hefur þó verið skipu­lögð að­gerð þar sem tærnar verða fjar­lægðar. „Þetta er lítil að­gerð þar sem það er ekki neitt bein í tánum heldur eru þær bara húð hólkar með tá­nöglum þarna á sitt­hvorum fætinum.“ Í næsta mánuði mun Tási því aðeins vera með tíu tær.

„Það verður rosalega skítið að venjast því að sjá ekki þessar auka tásur. Ég mun sakna þeirra beggja mjög mikið.“ Það sé þó fátt með öllu svo illt að eigi boði nokkuð gott. „Það já­kvæða við þetta er að mér finnst mjög erfitt að klippa þessar litlu táneglur svo það verða færri neglur til að klippa, sem er á­kveðinn léttir.“

Það getur verið vandasamt verk að klippa litlar táneglur að mati Fanneyjar.
Fréttablaðið/Ernir