Þorvaldur S. Helgason
thorvaldur@frettabladid.is
Mánudagur 25. október 2021
22.03 GMT

Ofoq Ros­han er 31 árs blaða­maður frá Afgan­istan sem flúði heima­land sitt á­samt eigin­manni sínum og dætrum í kjöl­far valda­töku Talí­bana í ágúst. Hún er með BA gráðu í fjöl­miðla­fræði og meistara­gráðu í kynja- og jafn­réttis­fræðum frá há­skólanum í Kabúl og kom fyrst til Ís­lands árið 2018 til að stunda diplóma­nám við al­þjóð­lega jafn­réttis­skólann GRÓ GEST.

Ofoq lýsir deginum þegar Talí­banar hófu inn­reið sína inn í höfuð­borgina Kabúl þann 15. ágúst sem hinum allra versta degi. „Daginn sem þeir komu, það var eins og á­fall, af því engan grunaði að þetta myndi gerast svona. Allt fólkið var í vinnunni og við heyrðum bara að þeir væru að koma.“

Í Afgan­istan rit­stýrði Ofoq tíma­riti auk þess sem hún barðist fyrir kven­réttindum og jafn­rétti þar í landi. Hún var í vinnunni þegar hún fékk fréttirnar af inn­rás Talí­bana en sem betur fer voru dætur hennar tvær í skóla á sama stað og vinnan hennar.

„Þetta var mjög slæmur dagur, hinn allra versti dagur, verðirnir komu og sögðu mér að ná í börnin mín og fara. Þeir sögðu bara ‚Taktu börnin þín og farðu af því þeir eru að koma, þeir eru í borginni‘.“


Þetta var mjög slæmur dagur, hinn allra versti dagur, verðirnir komu og sögðu mér að ná í börnin mín og fara. Þeir sögðu bara ‚Taktu börnin þín og farðu af því þeir eru að koma, þeir eru í borginni.'


Ofoq Roshan ásamt eiginmanni sínum Shahabuddin Jebran og eldri dóttur þeirra.
Fréttablaðið/Eyþór

Tók fjóra tíma að komast heim

Ofoq segist hafa gengið frá vinnunni heim til sín. Göturnar voru lokaðar og mikil ringul­reið í borginni vegna fjölda fólks sem reyndi að flýja.

„Vega­lengdin frá húsinu mínu og vinnunnar minnar tók vana­lega um þrjá­tíu mínútur með bíl en það tók okkur fjóra klukku­tíma að komast heim, vegna allrar ringul­reiðarinnar, allir vildu komast burt, bílarnir voru stopp og fólk þurfti að komast leiðar sinnar gangandi.“

Að sögn Ofoq höfðu hún og eigin­maður hennar Shahabuddin Jebran ekki gert neinar á­ætlanir um að komast úr landi þar sem þau hafði alls ekki grunað að Talí­banar myndu ná völdum svo hratt.

„Nei, ég gerði það ekki því á­standið var gott fyrir okkur þá. Ég vissi að í sveitunum og á öðrum stöðum væri stríðs­á­stand og ríkis­stjórnin væri að berjast en við vonuðum enn þá að á­standið myndi ekki verða svona slæmt. Við vildum ekki fara,“ segir hún.

Henni varð þó fljótt ljóst að henni og fjöl­skyldu hennar var ekki hugað líf undir stjórn Talí­bana. Sem blaða­maður og bar­áttu­kona fyrir kven­réttindum var hún aug­ljóst skot­mark öfga­hópsins. Þá var eigin­maður hennar Shahabuddin í síður betri stöðu því hann hafði unnið fyrir her­lið Banda­ríkja­manna.

„Þeir [Talí­banar] voru byrjaðir að leita uppi fólk sem unnu fyrir er­lendan liðs­afla, sem unnu fyrir ríkis­stjórnina, sem unnu með lög­reglunni og sér­stak­lega blaða­menn og bar­áttu­fólk fyrir kven­réttindum,“ segir hún.

Földu sig í kjallara

Fyrstu tvo dagana eftir valda­töku Talí­bana dvaldi fjöl­skyldan heima hjá sér en loks á­kváðu þau að yfir­gefa í­búðina. Þau fóru til ættingja sinna sem búa í út­jaðri Kabúl og földu sig í kjallara þeirra á meðan þau leituðu leiða til að komast úr landi.

Ofoq segir að henni hafi ekki strax dottið í hug að flýja til Ís­lands heldur hafi fyrrum kennari hennar við GRÓ GEST jafn­réttis­skólann, Dr. Irma Er­lings­dóttir, haft sam­band við hana til að spyrja hana frétta. Ofoq spurði þá Irmu hvort það væri ein­hver mögu­leiki á að hún gæti hjálpað fjöl­skyldu hennar að komast til Ís­lands. Dr. Irma sagðist myndu vekja at­hygli á máli hennar hjá ríkis­stjórninni og utan­ríkis­þjónustunni á Ís­landi og bað hana um að senda sér vega­bréf og önnur gögn.

„Ég sendi henni gögnin um morguninn og svo um seinni­partinn, það var um þrjú eða fjögur­leytið, þá hringdi hún í mig og sagði ‚Á­kvörðunin hefur verið tekin og þið verðið að fara í kvöld‘,“ segir Ofoq.

Að sögn hennar var á­kvörðunin um að fara frá Afgan­istan ekki auð­veld en það var þó aldrei neitt annað í stöðunni en að flýja því Talí­banar voru þegar byrjaðir að beina spjótum sínum að fólki með hennar bak­grunn. Ofoq fannst einna erfiðast að skilja móður sína eftir, sem varð ekkja þegar íslamskir víga­menn myrtu eigin­mann hennar, föður Ofoq, árið 1992.

„Ég sagði henni að ég vildi ekki fara, ég gæti ekki skilið hana eina eftir. En hún sagi ‚Nei, það er gott að fara‘ að ég ætti að gera það fyrir mig sjálfa,“ segir Ofoq.

Nýsjálenskir hermenn standa vörð við Hamid Karzai alþjóðaflugvöllinn í Kabúl 25. ágúst 2021.
Fréttablaðið/Getty

Sum börn létust af því það var of mikil ös, of mikið af fólki. Sum voru bara kornabörn, tveggja eða þriggja mánaða og allt að eins árs, þau gátu ekki andað í öllum troðningnum.


Börn létust í troðningnum

Dagana um og eftir fall Kabúl ríkti gífur­leg ringul­reið fyrir utan Hamid Karzai al­þjóða­flug­völlinn þar sem fólk lagði allt í sölurnar til að reyna að komast í björgunar­flug á vegum er­lendra ríkis­stjórna. Ofoq stað­festir þetta og segir erfiðasta part ferða­lagsins hafa verið að komast í flugið. Talí­banar voru búnir að um­kringja flug­völlinn sem þá var enn undir stjórn Banda­rísks her­liðs og Ofoq lýsir á­standinu sem stór­hættu­legu.

„Það var barist og skotið úr byssum, þeir hrintu fólki, sum börn urðu við­skila við for­eldra sína og það var mjög erfitt að komast inn á flug­völlinn." Þá segir hún börn hafa látist í öng­þveitinu, troðist undir eða of­hitnað, því hitinn náði allt að 40 stigum á þeim tíma.

„Sum börn létust af því það var of mikil ös, of mikið af fólki. Sum voru bara kornabörn, tveggja eða þriggja mánaða og allt að eins árs, þau gátu ekki andað í öllum troðningnum,“ segir Ofoq og bætir við að vin­kona hennar Zeba Sultani, sem flúði til Ís­lands á svipuðum tíma, hafi þurft að skilja son sinn eftir vegna þess að hún þorði ekki að taka hann með sér inn á flug­völlinn.

Ofoq og fjöl­skyldan fóru að brott­farar­hliðinu sem utan­ríkis­þjónustan hafi sagt þeim að fara á en þegar þangað var komið var öng­þveitið svo mikið að þau töldu sig ekki örugg. Með hjálp ís­lensks full­trúa At­lants­hafs­banda­lagsins komust þau á endanum um borð í her­flug­vél sem milli­lenti í Pakistan í einn sólar­hring. Frá Pakistan flugu þau til Dan­merkur og svo loks til Ís­lands.

Ofoq í Afganistan.
Mynd/Aðsend

Eins og búr fyrir konur

Ofoq segir á­standið í Afgan­istan fara sí­versnandi, mjög hefur verið þrengt að réttindum kvenna til vinnu og náms, heil­brigðis­kerfið er að hruni komið og mikill matar­skortur í landinu. Í dag varaði Matar­hjálp Sam­einuðu þjóðanna til að mynda við því að rúm­lega helmingur af­gönsku þjóðarinnar, um 22,8 milljónir, gæti staðið frammi fyrir fæðuóöryggi ef fram heldur sem horfir.

Talí­banar hafa lofað mildari stjórnunar­háttum en voru við lýði á 10. ára­tug síðustu aldar en Ofoq gefur lítið fyrir þau lof­orð og lýsir þeim sem fyrir­slætti og lygum.

„Þeir eru bara að ljúga af því fjöl­skyldan okkar er þarna og þau segja okkur ‚Svona er á­standið, ekki eins og þeir segja að það sé‘. Eins og systir mín og móðir mín, þær eru heima núna og geta ekki farið í skóla eða vinnu,“ segir Ofoq en systir hennar vann einnig fyrir Banda­ríkja­menn og er því í tölu­verðri hættu.

Að­spurð um hvernig á­standið sé í höfuð­borginni Kabúl segir Ofoq það versna dag frá degi.

„Á hverjum degi hand­taka þeir fólk sem unnu með hernum, þeir hand­taka fólk sem vann með út­lendingum, þeir hand­taka blaða­menn, þeir banna skrif blaða­manna af því þeir vilja ekki að verk þeirra komist úr landi.“


Enginn stendur með Afgan­istan núna. Banda­ríkja­menn fóru og al­þjóða­sam­fé­lagið fór. Án stuðnings er­lendra landa mun Afgan­istan verða skot­spónn ná­granna­ríkja af því allir vilja hagnast á því sjálfir. Enginn hugsar um hags­muni landsins eða fólksins, ekki einu sinni okkar eigin leið­togar.


Skömmu eftir valda­tökuna lýstu Talí­banar því yfir að stúlkum og konum yrði leyft að stunda nám innan marka íslamskra sjaríalaga en strax hefur byrjað að bera á tak­mörkunum. Stúlkur á gagn­fræða­skóla­aldri hafa til að mynda ekki enn fengið að snúa aftur til náms eftir rúma tvo mánuði. Þá hafa sumir há­skólar í Afgan­istan brugðið á það ráð að að­skilja karl­kyns og kven­kyns nem­endur með tjaldi inni í skóla­stofunni.

„Eins og ég heyri það þá eru þeir að setja eitt­hvað í líkingu við búr fyrir konur inn í skóla­stofurnar gert úr gardínum. Fyrst um sinn þurftu þeir að að­skilja bekkina en ef það er ekki mögu­leiki á að að­skilja bekkina þá gera þeir þá eins og búr fyrir konuna að sitja í. Henni mun aldrei líða þægi­lega að sitja þannig og læra,“ segir Ofoq.

Í heildina segist hún raunar alls ekki vera von­góð um fram­tíð Afgan­istan.

„Enginn stendur með Afgan­istan núna. Banda­ríkja­menn fóru og al­þjóða­sam­fé­lagið fór. Án stuðnings er­lendra landa mun Afgan­istan verða skot­spónn ná­granna­ríkja af því allir vilja hagnast á því sjálfir. Enginn hugsar um hags­muni landsins eða fólksins, ekki einu sinni okkar eigin leið­togar.“

Kvenkyns og karlkyns nemendur aðskildir með skilrúmi í Mirwais Neeka háskólanum í Kandahar.
Fréttablaðið/EPA

Auð­vitað elska allir landið sitt

Ofoq hefur nú dvalið á Ís­landi í tæpa tvo mánuði og segir hún þau fjöl­skylduna vera smám saman að koma sér fyrir.

„Ég er þakk­lát ís­lensku þjóðinni og ís­lensku ríkis­stjórninni fyrir að gefa okkur tæki­færi að fá að búa hér. Við erum heil á húfi en við lifum þó enn við spennu og höfum á­hyggjur af ættingjum okkar sem við skildum eftir heima. Þetta er góður staður, allt er gott hér. Nú get ég unnið, börnin mín geta farið í skóla og kannski verður lífið betra þegar við komum okkur betur fyrir og finnum okkar far­veg hér á Ís­landi.“

Hún segist vera ó­viss um hvort hún muni fara aftur til Afgan­istan í fram­tíðinni þótt auð­vitað beri hún enn sterkar taugar til heima­landsins.

„Það fer eftir að­stæðum. Auð­vitað elska allir landið sitt, það er bara partur af lífinu að elska heima­landið sitt. En ef á­standið verður svona þá held ég að ég muni ekki geta það,“ segir hún.

Ofoq segir mark­mið sín fyrir nánustu fram­tíð vera að læra ís­lensku og gæti hún vel hugsað sér að vinna við fjöl­miðla hér á landi en til þess þyrfti hún fyrst að læra tungu­málið. Hún í­trekar þakk­læti sitt til ís­lensku þjóðarinnar fyrir að leyfa sér og sínum að búa hér og segist vona að hægt verði að gefa fleira fólki í þeirra stöðu sama tæki­færi.

„Ég vil bara biðja þau um að hjálpa fleira fólki frá mínu landi sem eru í enn við­kvæmari stöðu, eins og konur og stúlkur, og að gera lögin að­eins auð­veldari hvað þetta varðar. Þetta eru sér­stakar að­stæður og þegar maður er í sér­stökum að­stæðum þá ætti að grípa til sér­stakra að­gerða eins og var gert fyrir okkur,“ segir Ofoq að lokum.

Athugasemdir