Enginn starfsmaður Landspítala er í einangrun vegna gamals smits. Þetta staðfestir Andri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Landspítalans.

Í dag eru 213 starfsmenn LSH frá vinnu vegna Covid-19 smits. Neyðarstig er í gildi á Landspítala og heilbrigðisstarfsfólk úr sjálfstæða geiranum hefur verið fengið til að veita hjálparhönd til að létta undir.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, spurði Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í dag hvort spítalinn hefði athugað hvort einhver hluti smitanna væru óvirk í ljósi manneklunnar og neyðarstigs á Landspítala

Willum Þór svaraði að hann hefði ekki fengið staðfestar tölur um hlutfall virkra og óvirkra smita.

Andri segir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að fólk fái stundum vafasvar og þá þurfi að skera úr um smit með öðru sýni innan 48 tíma.

„Vafasvar getur verið byrjandi sýking eða alveg í blálokum og þá er gerð mótefnamæling, viðkomandi er þá í einangrun á meðan úr þessu er skorið.“

Hann bendir á að meirihluti þeirra starfsmanna sem eru í sóttkví séu engu að síður að mæta til vinnu vegna þeirrar erfiðu stöðu sem er í mönnun á spítalanum.