Enginn slasaðist þegar rúta með fjórtán erlendum ferðamönnum fór út af veginum um Kjalarnes á ellefta tímanum í morgun. Þetta sagði Valgarður Valgarðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á lögreglustöðinni við Vínlandsleið í samtali við Fréttablaðið. „Mér sýnist þetta bara hafa sloppið vel, allir óslasaðir.“

Í fyrstu fréttum af slysinu segir að rútan hafi verið nálægt því að fara á hliðina en Valgarður vissi ekki hvort að svo hefði farið. „Ég sé að það er bókað í upphafi að hún sé að fara á hliðina en veit ekki hvernig það endaði.“ Aðspurður segist hann ekki vita hvort að farþegarnir hafi þurft að yfirgefa rútuna áður en viðbragðsaðilar komu á vettvang. „En björgunarsveitirnar komu fljótt að þessu. Þannig að þetta virðist hafa gengið nokkuð vel.“

Lögreglan telur að rútan hafi fokið út af veginum, en mjög hvasst er á Kjalarnesi líkt og annars staðar á landinu. Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöð í Klébergsskóla á Kjalarnesi, þar sem fólkið er enn, en búið er að loka veginum og því býst lögreglan við að fólkið þurfi að bíða veðrið af sér í Klélbergsskóla, fram eftir degi. Mestu máli skipti þó að allir hafi sloppið óheilir frá slysinu.