Enginn slasaðist í stórbrunanum í Kópavogi í nótt. „Að því er ég best veit þá var húsið tómt. Enginn var inni í byggingunni þegar eldur kom upp,“ segir vakthafandi varðstjóri slökkviliðsins í samtali við Fréttablaðið.

Slökkvilið vinnur nú við að vatnshreinsa iðnaðarhúsnæðið við Vesturvör í Kópavogi þar sem eldur kom upp um hálf fjögur í nótt. Um er að ræða þrjú þúsund fermetra byggingu sælgætisgerðarinnar Freyju og Vélsmiðjunnar Hamars. Slökkvistarf gekk ákaflega vel að því er fram kemur í frétt RÚV, en hætta skapaðist þar sem mikið var af gaskútum, suðutækjum og eldsneyti í byggingunni.

Fréttablaðið/Anton Brink

Tilkynning barst um eldinn um klukkan hálf fjögur í nótt eftir að vegfarandi sá mikinn reyk stíga upp. Allt tiltækt slökkvilið var sent á vettvang og slökkviliðsmenn kallaðir inn af frívakt.

„Það var strax mikill reykur í þessu húsi.“

Slökkviliðsmenn eru enn á vettvangi og verða að næstu klukkutíma þar til lögreglan tekur við rannsókn málsins. Talsvert mikið af skemmdum urðu inni í byggingunni en talið er að eldurinn hafi komið upp í vélsmiðjunni.

Fréttablaðið/Anton Brink