Sífellt fleiri taka þátt í verkefni félagsmálaráðuneytisins Samvinna eftir skilnað eftir að því var hrundið af stað í byrjun árs. Í verkefninu fá foreldrar barna upp að 18 ára ráðgjöf í skilnaðarferlinu. Hafnarfjörður reið á vaðið í janúar. Í apríl tók Fljótsdalshérað þátt, sem var svo yfirfært til Múlaþings þegar fjögur sveitarfélög sameinuðust. Í haust ákvað Mosfellsbær að taka þátt.

Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri hjá Hafnarfjarðarbæ, segir litla en góða reynslu komna á verkefnið. „Fjöldi umsókna hefur borist þar sem óskað hefur verið eftir skilnaðarráðgjöf og foreldrum hefur verið veittur aðgangur að rafrænum námskeiðum,“ segir hún.

Foreldrum stendur til boða þriggja þátta rafrænt námskeið, sérhæfð ráðgjöf og hópanámskeið. Rannveig segir fáa hafa óskað eftir frekari ráðgjöf eftir að hafa tekið rafrænu námskeiðin. Verkefnið hefur verið kynnt fyrir prestunum í Hafnarfirði, starfsfólki grunnskólanna og leikskólanna.

Verkefnið er að danskri fyrirmynd og þar í landi er skilnaðarráðgjöf skylda fyrir foreldra barna undir 18 ára. Félagsráðgjafarnir Sigrún Júlíusdóttir og Gyða Hjartardóttir sem hófu verkefnið hafa sagt það vera markmið sitt líka. Kvennaathvarfið hefur hins vegar varað við því að gera skilnaðarráðgjöf að skyldu því að hún geti verið tæki ofbeldismanna til að halda lengur taki á fyrrverandi maka.

„Foreldrar sækja um að eigin frumkvæði og því er enginn þvingaður í ráðgjöfina,“ segir Rannveig. Fjöldi umsókna hafi nú borist en vegna hertra samkomutakmarkana þurfi starfsfólk fjölskyldu- og barnamálasviðs að vinna í fjarvinnu og því ekki þótt tímabært að auglýsa hópanámskeið.

Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri