Vegna boðaðs verkfalls hópbifreiðastjóra fellur skólaakstur að óbreyttu niður í Reykjavík á morgun föstudaginn 22. mars. Þetta á við um akstur í og úr skóla, akstur í sund og akstur í íþróttir. Sundkennsla fellur víða niður vegna þess. Akstursþjónusta fatlaðra nemenda verður með óbreyttu sniði.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg eru foreldrar og aðstandendur nemenda  hvattir til að sameinast um akstur til og frá skóla þar sem það á við.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, segir í samtali við Fréttablaðið að honum þyki miður að tilkynning um að skólaakstur falli niður sé send svo seint en að þau hafi verið að bíða eftir svörum frá Eflingu. Bæði hafi borgin beðið um undanþágu og svo vantaði þeim frekari útskýringar vegna ólíkrar túlkunar Eflingar og Samtaka atvinnulífsins á vinnulöggjöfinni og hvaða bílstjórar eigi að taka þátt í verkfallinu á morgun. 

„Fyrirtæki sem við erum í viðskiptum við með skólaakstur sagðist geta mannað bílstjóra sem væru utan þessara stéttarfélaga og við vildum fá álit Eflingar á því hvort þau myndu fara í aðgerðir þótt að fyrirtækin segðu þetta og svarið var að þau litu á öll verkfallsbrot alvarlegum augum,“ segir Helgi.

Hann segir að skóla- og frístundasvið ætli ekki að taka neinn „sjéns“ á morgun ef til dæmis ætti að koma til einhvers konar verkfallsvörslu af hálfu stéttarfélaganna. Þau hafi viljað hlífa börnunum því.

„Við vildum alls ekki að börnin væru í slíkum aðstæðum,“ segir Helgi.

Frístundaakstur á vegum íþróttafélaga

Í tilkynningunni kemur einnig fram að frístundaakstur er á vegum hvers og eins íþróttafélags og eru því aðstandendur barna beðnir um að vera í sambandi við viðkomandi félag varðandi íþróttaæfingar. 

Helgi býst við því að öllu óbreyttu að akstur og sund falli einnig niður þegar til næstu verkfalla kemur.

Hann segir að verkföllin séu viðkvæmust þegar kemur að börnum sem þurfi akstur til og frá skóla. Það séu börn til dæmi í Melaskóla, Hlíðaskóla, Klettaskóla og svo séu auðvitað börn í Fossvogsskóla við kennslu í Laugardalshöll í dag vegna myglu. Vegna verkfalla verða því foreldrar að sjá til þess að börn komist í skóla.

Tilkynningu Reykjavíkurborgar er hægt að sjá hér í heild sinni.