Alþjóðlega Downs-deginum verður á morgun, þann 21. mars, fagnað víða um heim. Dagsetning dagsins er engin tilviljun, heldur er mjög táknræn og vísar til þess að Downs-heilkenni er orsakað af auka litning í litningi 21, það er að þrjú eintök af litning 21.

Þórdís Ingadóttir, formaður Félags áhugafólks um Downs-heilkenni, segir í samtali við Fréttablaðið að venju muni félagið halda upp á daginn með samveru og gleði en hvetur alla til að taka þátt. Til að fagna deginum klæðist fólk alla jafna mislitum sokkum til að fagna og standa með fjölbreytileika. Meðlimir hljómsveitarinnar Hatara tóku forskot á daginn og klæddust einnig mislitum sokkum í dag til að hvetja fólk til að taka þátt á morgun.

„Það er alltaf mjög góð þátttaka. Hatari var að senda okkur mynd og áður hefur forsetinn tekið þátt og karlalandsliðið í fótbolta,“ segir Þórdís.

„Enginn skilinn eftir“ þema ársins

Þórdís segir að ár hvert sé nýtt þema og þema ársins 2019 sé að enginn skuli skilinn eftir og að lögð sé áhersla á jafnt aðgengi allra að bæði skóla og atvinnu.

„Það hefur verið mikið fjallað um það í vetur, aðgengi þeira að vinnu. Við erum komin langt á veg með skóla án aðgreiningar, en síðan hefur verið lítið um tækifæri þegar þau eru búin með nám í menntaskóla,“ segir Þórdís.

Hún segir að mennta- og menningarmálaráðherra sé búin að skipa nefnd sem eigi að fjalla um atvinnumál fatlaðs fólks og hún voni að samhliða því megi sjá úrbætur á þeim málum.

„En svo er það samfélagsleg ábyrgð okkar allra, fyrirtækja og hins opinbera, að huga að þessum málum,“ segir Þórdís.

Tilgangur að fagna fjölbreytileika

Hún segir að tilgangur dagsins sé í grundvallaratriðum að fagna fjölbreytileika og að félagið vinni ávallt að samfélagi án aðgreiningar og jöfnum rétti fyrir alla. Hún segir að um 100 fjölskyldur séu í félaginu eins og staðan er í dag. 

„Það er þannig sem þessi dagur er settur af Sameinuðu þjóðunum og gaman hvað þetta stækkar ár frá ári. Þannig vekjum við athygli á málstað einstaklinga með heilkennið. En þetta er ekki síður fyrir okkar félagsmenn að koma saman og fagna,“ segir Þórdís að lokum.

Nánari upplýsingar um hátíðarhöld á morgun og Downs-félagið er að finna hér að neðan.

Hyggist fólk klæðast mislitum sokkum á morgun og birta af því mynd á samfélagsmiðlum er það hvatt til að nota myllumerkið #downsfelagid.