Enginn þeirra sem lést í bana­slysi sem varð við Núps­vötn í desember árið 2018 var í bíl­belti. Þrír létust í slysinu; tvær konur á fer­tugs­aldri, sem hvorug var í belti, og ellefu mánaða gamalt stúlku­barn, sem var ekki í barna­bíl­stól.

Þetta kemur fram í niður­stöðum skýrslu rann­sóknar­nefndar sam­göngu­slysa. Í skýrslu nefndarinnar eru til­greindir fjórir þættir sem eru taldir hafa or­sakað slysið. Það að enginn hafi verið í belti eða barna­bíl­stól er ein þeirra.

Öku­maður bílsins er þá talinn hafa ekið yfir há­marks­hraða en þegar hann missti stjórn á jeppanum sem hann ók yfir ein­breiða brú fór hann upp á vegriðið hægra megin vegarins sem gaf undan. Ísing var á brúnni þegar slysið varð og því talið að veg­grip hafi verið mjög skert.

Brúin stenst ekki núverandi staðla

Á­fengis- og lyfja­prófanir á öku­manni bif­reiðarinnar gáfu ekki til kynna notkun lyfja eða vímu­efna. Alls voru sjö manns í bílnum en farþegarnir voru ferðamenn af breskum uppruna.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að sam­kvæmt hraða­út­reikningi hafi bíllinn að öllum líkindum verið á 114 kíló­metra hraða á klukku­stund. Skekkju­mörk út­reikninganna eru 8 kíló­metrar á klukku­stund og hefur bíllinn því verið á hraða á bilinu 106 til 122 kíló­metrum á klukku­stund. Há­marks­hraði á brúnni var 90 kíló­metrar á klukku­stund þegar slysið varð en eftir það var hann lækkaður niður í 50 kíló­metra á klukku­stund.

Í skýrslunni segir þá að brúin yfir Núps­vötn standist ekki nú­verandi staðla. Brúin var opnuð fyrir um­ferð árið 1973 og kemst nefndin að því að hönnunar­staðlar hafi breyst síðan þá. Sam­kvæmt Vega­gerðinni stendur til að reisa nýja brú yfir Núps­vötn á árinu og hvetur nefndin stjórn­völd og Vega­gerðina til að fylgja þessum á­ætlunum eftir.