Níu þeirra ellefu sem greindust með innan­lands­smit í gær voru ekki í sóttkví við greiningu. Þetta stað­festir Jóhann K. Jóhanns­son, sam­skipta­stjóri al­manna­varna, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Uppfært klukkan 12:08: Fyrst sagði Jóhann við Fréttablaðið að enginn þeirra ellefu sem greindust hefði verið í sóttkví en síðar kom í ljós að tveir af ellefu voru í sóttkví.

Alls eru 287 í sóttkví á landinu og fjölgar þeim um 72 síðan í gær. Fimmtíu smit eru virk á landinu og liggur einn á sjúkrahúsi.

Tíu smitanna sem greindust í gær greindust hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Hitt smitið greindist hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Fjöldi innanlandssmita hefur greinst síðustu daga en tíu greindust á fimmtudaginn og eru ný innanlandssmit á síðustu tveimur sólarhringum því 21.

Til viðbótar við innanlandssmitin ellefu greindist einn með virkt smit í skimun við landa­mærin í gær. Annar greindist svo með gamalt smit og er beðið eftir mót­efna­mælingu hjá þeim þriðja.