„Það segir sig sjálft að það eru ekki góðar fréttir fyrir okkur þegar reynslumiklir blaða- og fréttamenn hverfa frá okkur,“ segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri, um hrinu uppsagna hjá starfsfólki RÚV.Margir burðarásar í hópi frétta- og dagskrárgerðarfólks hafa hætt störfum hjá RÚV undanfarið.

Helgi Seljan, rannsóknarblaðamaður í Kveik, nú síðast í fyrradag. Viðbragð Samherja í kjölfar Namibíumálsins, að fara í áróðursherferð gegn Helga og RÚV, hafði neikvæð áhrif á fréttamenn RÚV, að sögn útvarpsstjóra.

„Það er ljóst að þetta var nýtt fyrir okkur öllum, enginn sá fyrir hvers konar brjálæði skapaðist,“ segir Helgi, spurður hvort skortur á stuðningi innan RÚV eftir Namibíumál Samherja hafi haft áhrif á þá ákvörðun hans að segja skilið við Ríkisútvarpið.„Auðvitað hefði verið hægt að taka öðruvísi og betur á málum þegar árásir Samherja hófust. Það er hins vegar eitthvað sem ég held að allir hafi lært af,“ segir Helgi.

Hann segist þó kveðja RÚV hvorki beiskur né bitur. „Ég vona að RÚV eins og allir aðrir fjölmiðlar standi betur í lappirnar ef eitthvað sambærilegt gerist á ný.“Uppsagnirnar á RÚV tengjast fremur álagi og vinnslu stórra mála líkt og Samherjamálsins en vanda við mannauðsstjórnun, að mati Stefáns útvarpsstjóra.

Sem dæmi henti það ekki öllum að ganga vaktir og vinna á kvöldin og um helgar. Í sumum tilfellum hafi fólk hætt störfum þar sem því bjóðist betri kjör annars staðar fyrir styttri vinnutíma og minna álag.

„En ég dreg enga fjöður yfir að þau stóru mál sem okkar fólk hefur fjallað um að undanförnu hafa reynst starfsfólki erfið. Ekki síst fordæmalausar árásir á Helga Seljan vegna umfjöllunar um málefni Samherja,“ segir Stefán.

Spurður hvort líta megi svo á sem Samherji hafi unnið sigur með því að áhöfn Kveiks á RÚV sem starfaði að Namibíumálinu hefur nánast þurrkast út, svarar útvarpsstjóri að hann telji svo alls ekki vera.

„Hvað Helga Seljan varðar sérstaklega þá er það sigur fyrir íslenska þjóð og blaðamennsku að þessi öflugi blaðamaður haldi áfram sínum störfum.“

Hann segir að það muni taka tíma að þjálfa þá upp sem eigi að fylla skarð þeirra sem hafa hætt störfum, en margt öflugt og hæfileikaríkt fólk standi eftir.

„Við vitum að það er mikið álag á fréttamenn, það mælist hátt í vinnustaðagreiningum hjá okkur og jafnvel meira en hjá öðrum fjölmiðlum. Upplifun fólks af álagi hér er mikil,“ segir Stefán.Í Fréttablaðinu í dag auglýsir Ríkis­útvarpið bæði eftir fréttastjóra og dagskrárstjóra Rásar 2.