Kol­brún Baldurs­dóttir, odd­viti Flokks fólksins, segir engan hafa rætt við sig um mögu­lega meiri­hluta­myndun, en segist alls ekki vera ó­ró­leg. Hún segir flokkinn reiðu­búin til að taka þátt í meiri­hluta.

Margt hefur verið rætt og ritað um mögu­lega meiri­hluta. Einar Þor­steins­son, odd­viti Fram­sóknar, virðist vera með pálmann í höndunum og hyggst ræða við Dóru Björt, odd­vita Pírata síðar í dag.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Kol­brún ekki vera í neinum við­ræðum enn sem komið er. Enginn hafi heyrt í sér en þó hafi ein­hver ó­form­leg sím­töl átt sér stað.

„Það hafa átt sér stað ein­hver sím­töl, eins og gengur en við höfum ekki verið kölluð að neinu borði enn­þá.“

Kemur það á ó­vart?

„Nei, ég held að á þessum tíma­punkti sé það bara eðli­legt og auð­vitað bíð ég spennt en ég er ekki ó­ró­leg, þetta þarf allt að hafa sinn gang.“

Kol­brún segir að­spurð ekki spenntari fyrir neinum flokki fram yfir aðra upp á meiri­hluta­sam­starf.

„Ég hef alltaf sagt það að við erum mjög til­búin í meiri­hluta, til þess að geta komið okkur góðu málum á fram­færi. Það hefur ekki dugað mjög vel að vera í minni­hluta og það eru auð­vitað margir flokkar með mál sem ríma vel við okkar á­herslur, auð­vitað mis­mikið.“

Kol­brún bætir við að Flokkur fólksins hafi og muni á­fram leggja á­herslu á mál barna­fjöl­skyldna, ör­yrkja og eldri borgara.

Líst vel á meiri­hluta D, B, C og F

Að­spurð um mögu­legan meiri­hluta Fram­sóknar, Sjálf­stæðis­flokksins, Við­reisnar og Flokk fólksins, sem rætt hefur verið um þegar talað er um mögu­lega meiri­hluta segir Kol­brún að sér lítist vel á.

„Já, mér líst mjög vel á það. Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur náttúru­lega talað fyrir leik­skóla­málunum, Fram­sókn um börn og barna­fjöl­skyldur og vel hægt að finna flöt en það strandar á þessum eina í við­bót.“

Á Við­reisn?

„Já, er það ekki? Það er það sem ég les í blöðunum alla­vega,“ segir Kol­brún. Þór­dís Lóa Þór­halls­dóttir, odd­viti Við­reisnar, hefur sagt flokkinn opinn fyrir öllu, þrátt fyrir að hann gangi fram í meiri­hluta­við­ræðum með Sam­fylkingu og Pírötum.

„Ég er ekki búin að gefa upp alla von. Þetta þarf bara að hafa sinn gang.“