Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur ekki endurnýjað opinberan stuðning við Íslensku óperunnar, að hluta til vegna þeirra deilna sem hafa staðið um starfsemi hennar vegna kynbundins launamunar.

Fréttablaðið hefur ítrekað greint frá óánægju fagfélaga og söngvara vegna rekstur óperunnar. Sjö fagfélög hafa fundað með Lilju D. Alfreðsdóttur ráðherra og óskað eftir því að hún taki skýra afstöðu varðandi framtíðarskipan óperustarfsemi á Íslandi. Samningur Óperunnar við hið opinbera rann út áramótin 2019/2020.

„Í nýjum viðauka um stuðning hins opinbera við starfsemi Íslensku óperunnar er kveðið á um skuldbindingar sjálfseignarstofnunarinnar, þar með talið að hún skuli fara eftir þeim kjarasamningum sem hún er aðili að og ávallt taka mið af ákvæðum laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og rétt kynjanna. Samningur um opinberan stuðning við Íslensku óperuna hefur ekki verið endurnýjaður, að hluta til vegna þeirra deilna sem staðið hafa um starfsemi hennar,“ segir í svari mennta- og menningarmálaráðuneytisins í svari við fyrispurn Fréttablaðsins.

Kynbundinn launamunur og brotnir samningar

Mikil óánægja hefur kraumað undir yfirborðinu og náði hún hámarki eftir að óperustjóri virti ekki gildandi kjarasamninga FÍH við uppfærslu á Brúðkaupi Fígarós og upp komst um kynbundinn launamun hjá söngvurum sem fram komu í óperunni.

Klassískir söngvarar lýstu yfir algjöru vantrausti á stjórn og óperustjóra Íslenska óperunnar eftir sýknudóm í máli Þóru Einarsdóttur gegn Íslensku óperunnar vegna vangoldinna launa og samningsabrota í tengslum við fyrrnefnda óperu. Þóra ætlar að áfrýja málinu til Landsréttar. Er það mat hennar, BÍL, FÍH og lögmanna þeirra að dómurinn sé rangur í öllum meginatriðum og gangi þvert á þá lögfestu meginreglu vinnuréttar að samningar um lakari kjör en kveðið er á um í kjarasamningum séu að engu hafandi.

Óperustjóri hefur lýst því yfir að hún vilji setjast niður með söngvurum til ræða samningargerðir í framtíðinni en söngvarar segja traustið farið eftir að óperustjóri virti ekki samning FÍH.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri.

„Komi ekki til stofnunar þjóðaróperu verður óperustarfsemi boðin út.“

Þjóðaróperua eða útboð

Nefnd um stofnun þjóðaróperu vinnur nú við að kanna kosti og galla stofnunar þjóðaróperu á Íslandi og á að skila af sér vinnu nú um mánaðarmótin janúar og febrúar.

„Vinna við mótun tillagna um framtíðarskipan óperumála er í fullum gangi, og hefur ráðherra lýst yfir áhuga á stofnun þjóðaróperu. Ráðgert er að nefnd þar að lútandi skili tillögum sínum á næstu vikum. Komi ekki til stofnunar þjóðaróperu verður óperustarfsemi boðin út í samræmi við lög um opinber fjármál,“ segir ráðuneytið.

Aðspurð um mögulega úttekt á Íslensku óperunni og hvað ráðuneytið ætli að gera í ljósi þeirra umkvartana sem hafa borist frá fagfélögum segir ráðuneytið:

„Úttektir á starfsemi Íslensku óperunnar sem eru á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins snerta framkvæmd samninga milli stofnunarinnar og ráðuneytisins. Þess skal einnig getið að mennta- og menningarmálaráðuneyti ber ekki ábyrgð á úrlausn mála milli sjálfseignarstofnunar Íslensku óperunnar og stéttar- og hagsmunafélaga, né fellur starfsemi óperunnar beint undir yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir mennta- og menningarmálaráðherra.“

Gunnar Hrafnsson, formaður Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), segir vandamálið ekki að fá Íslensku óperuna til að setjast niður og gera nýjan samning, heldur að fá Óperuna til að standa við gerðan samning.