Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sagði í Fréttavaktinni á Hringbraut í gær að niðurstaða fræðimannanna væri að nútímavæðing Íslands og velsæld Íslendinga á hverju tímabili í sögunni fyrir sig byggði fyrst og fremst á samskiptum við útlönd. Samskiptin við útlönd stýri því nútímavæðingunni og velsæld Íslendinga.

Í viðtalinu ræddi Baldur um nýja bók sem hann, ásamt meðhöfundum hans, gáfu út nýverið. Hún ber heitið Iceland's shelterseeking behaviour: From settlement to republic. Þar kanna höfundarnir hvort Íslendingar hafi vanmetið mikilvægi alþjóðasamskipta í sögu þjóðarinnar. Þrátt fyrir þetta eigi Evrópusambandið ekki upp á pallborðið hjá Íslendingum: „Það held ég að sé komið til vegna orðræðunnar okkar um hvar valdið liggur,“ segir Baldur.

Hann segir lítinn sem engan mun á orðræðu andstæðinga þriðja orkupakkans eða andstæðinga inngöngu Íslands í NATO árið 1949. Innihaldið sé það sama. Baldur segir að ákveðins misskilnings gæti í umræðunni: „Við þekkjum ekki aðra orðræðu og hún virkar svo við höldum okkur við hana. Við höldum að við höfum alltaf verið einangruð eyþjóð í gegnum aldirnar, en við höfundar bókarinnar höldum því fram að það sé misskilningur.“