Neytendastofu berast árlega tugir ábendinga um duldar auglýsingar áhrifavalda á samfélagsmiðlum. Sviðsstjóri neytendaréttarsviðs Neytendastofu segir duldar auglýsingar vera vandamál víða um Evrópu og Ísland vinni eftir samræmdum reglugerðum. 

Í gær birtist úrskurður þess efnis að Neytendastofa hefði bannað fyrirtækjunum Sahara Meida ehf og Origo hf., ásamt tveimur bloggurum á vefsíðunni trendnet.is að nota duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum. Neytendastofu höfðu þá borist ábendingar vegna bloggfærsla áhrifavaldanna á vefsíðunni Trendnet þar sem fjallað var um myndavél, sem seld er af Origo hf og bloggararnir fengu að gjöf.

Heilmikið um auglýsingar á samfélagsmiðlum

Þórunn Anna Árnadóttir, sviðsstjóri Neytendaréttarsviðs Neytendastofunnar, segir í samtali við Fréttablaðið að fleiri álíka mál séu á borði stofunnar til skoðunar. 

„Við erum alltaf með einhver mál sem við erum að skoða, það er náttúrulega heilmikið af auglýsingum á samfélagsmiðum,“ segir hún. 

Segir hún Neytendastofu berast fjöldi ábendinga árlega frá almennum borgunum sem benda á það sem þau telji vera duldar auglýsingar áhrifavalda á samfélagsmiðlum. „Við reynum að fylgjast vel með, en eftir að tiltekin mál hafa verið í fjölmiðlum þá berast fleiri ábendingar,“ segir Þórunn og bendir á að stofunni hafa borist um tíu til fimmtán ábendingar frá því greint var frá máli bloggaranna í fjölmiðlum í gær.

Merkt sem gjöf en ekki auglýsing 

Sem fyrr segir birti Neytendastofa í gær úrskurð þess efnis að tveimur bloggurum, þeim Svönu Lovísu Kristjánsdóttur og Fanneyju Ingvarsdóttur, sem báðar halda úti vinsælum Instagram-aðgöngum sem þúsundir fylgja, sem og að skrifa á síðuna Trendnet, hefði verið bannað að nota duldar auglýsingar. 

Auk þess var tæknifyrirtækinu Origo og samfélagmiðlaauglýsingastofunni Sahara Media ehv. bannað að notast við duldar auglýsingar. Fanney og Svana fengu báðar myndavélar af gerðinni Canon EOS M100 að gjöf frá fyrirtækinu og skrifuðu þær báðar nokkrar færslur í tengslum við myndavélina, auk þess að fjalla um myndavélina á samfélagsmiðlinum. 

Í úrskurði Neytendastofu segir meðal annars að færslur um myndavélina hafi verið merktar sem gjöf en ekki auglýsing. „Aðilar sem fá endurgjald og skrifa um eða dreifa upplýsingum um vörur eða þjónustu fyrirtækja á vefsíðum eða samfélagsmiðlum heyra því undir lögin, óháð því á hvaða formi endurgjaldið er,“ segir í úrskurði Neytendastofu.

Gagnrýna vinnubrögð Neytendastofu harðlega 

Bæði Svana og Fanney hafa svarað fyrir sig með bloggfærslum og á Instagram-síðum sínum þar sem þær gagnrýna vinnubrögð Neytendastofu og kalla eftir skýrari reglum varðandi auglýsingar á samfélagsmiðlum. Þá fara þær yfir stöðu mála og taka báðar fyrir að blogga til þess að græða pening. 

Segjast þær í rauninni hafa verið furðulostnar þegar að Neytendastofa hafði samband við þær og benda á að myndavélin hafi verið gjöf en ekki greiðsla. „Ég geri þetta eingöngu þar sem ég hef gleði og gaman af. Þess vegna kom það mér ótrúlega á óvart að einhverjar ábendingar skildu í raun og veru berast Neytendastofu út frá mér og mínu bloggi – ég hélt náttúrulega í fyrstu að einhver væri að fíflast í mér,“ segir Fanney meðal annars í færslu sinni sem birtist í gær. 

Kökudeig, Pítsur og myndavélar á samfélagsmiðlum

Neytendastofa hefur eingöngu gefið út úrskurði um þrjú mál tengd duldum auglýsingum síðasta árið. Fyrir jólin í fyrra komst stofan að þeirri niðurstöðu að Krónan og kökuverslunin 17 sortir hefðu notast við duldar auglýsingar í markaðssetningu sinni á kökudeigi. Ýmsir áhrifavaldar deildu þar færslum á samfélagsmiðlinum  með myllumerkingunum: #aðeinsíkrónunni, #krónan og #17sortir.

Fyrr á þessu ári bannaði Neytendastofa svo Domino‘s á Íslandi og Íslandsbanka að nota duldar auglýsingar í tengslum við herferð fyrirtækjanna í kringum svokallaðan „Meistaramánuð Íslandsbanka.“ Neytendastofu höfðu þá borist fjölda tilkynninga vegna færslna einstaklinga á samfélagsmiðlum í tengslum við mánuðinn þar sem færslur voru að þeirra mati ekki rétt merktar. 

Þriðji úrskurðurinn var gefinn út í gær. 

„Þetta eru einu formlegu ákvarðanirnar sem við höfum tekið um duldar auglýsingar. Við erum búin að gefa út ítarlegar leiðbeiningar um duldar auglýsingar,“ segir Þórunn Anna og bendir á að Neytendastofa hafi sent leiðbeiningar um duldar auglýsingar á fjölda áhrifavalda. 

„Það sem er að gerast svolítið þarna, í þessum tilfellum, er að það eru einstaklingar sem eru að auglýsa, frekar heldur en fyrirtæki og hafa þar af leiðandi minni þekkingu á lögum og reglum. Við höfum þess vegna lagt mikið púður í að kynna þetta,“ segir Þórunn.

Ekki nóg að merka færslu með „ad“

Þórunn sem bendir á að ekki sé nóg að merkja færslur með myllumerkinu „ad,“ líkt og sumir áhrifavaldar og fyrirtæki hafa gert. „Hvað telst nægileg merking?“ Spyr Þórunn. „Það fer svolítið eftir samhengi, myllumerkið ad gæti til dæmis verið falið innan um 25 myllumerki.“

Aðspurð segir Þórunn ábyrgðina bæði liggja hjá fyrirtækjum, sem kaupa þjónustu hjá áhrifavöldum og hjá áhrifavöldunum sjálfum. „Þetta er ekkert bara eitthvað sem við erum að vinna að, þessi lagaákvæði eru Evrópureglugerðir og þetta er vandamál víða og það er alls staðar verið að reyna að taka á þessu,“ segir Þórunn.

Tugir ábendinga hjálpa Neytendastofu

Sem fyrr segir berst Neytendastofu tugir ábendinga árlega vegna dulda auglýsinga. Fólk hringir, sendir tölvupóst eða sendir á netgátt stofunnar. Þórunn segir Neytendastofu svara öllum tölvupósti og ábendingarnar hjálpa starfinu gífurlega. 

„Svo fer þetta bara eftir því hversu ítarlegar ábendingarnar eru. Á markaði eins og þetta þar sem auglýsingarnar fara inn og út og margir að auglýsa þá eru þessar ábendingar bara nauðsynlegar.“

Þannig þið sjáið engan mun á gjöf eða greiðslu?

„Nei, það er enginn munur. Þó þú fengir lán þá ertu að fjalla um vöruna og ert að fá eitthvað fyrir það. Það er enginn að segja að megi ekki fjalla um vöruna, en það verður að koma fram að þú keyptir þér ekki eitthvað úti í búð heldur fékkstu það gefins frá fyrirtæki og neytandinn verður að vita það,“ segir hún að lokum.