Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir um N4-málið að hún hafi stutt tillögu um að auka við fjölmiðlapottinn og leggja sérstaka áherslu á dreifðar byggðir. „Í mínum huga stóð aldrei til að styrkja einhvern einn miðil um háa fjárhæð,“ segir Katrín.

Hún segir þingflokk VG sammála um að hundrað milljónunum sé ekki ætlað að renna til eins miðils. Spurð hvort það kunni að stangast á við jafnræði í stjórnarskrá eða reglur um fjórfrelsið ef féð verður skilyrt viðtakendum eftir búsetu, telur Katrín svo ekki vera og bendir sem dæmi á sérstakan ríkisstuðning í Noregi við landsbyggðarmiðla.

„Það tíðkast alls staðar innan EES að taka tillit til búsetuskilyrða. En aðalmálið er að reglur séu faglegar og skýrar, það á enginn einn miðill að geta sótt um stuðning umfram annan,“ segir Katrín.

Hún segist ekki vilja leggja mat á hvort Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins í meirihluta fjárlaganefndar, hafi verið vanhæfur í málinu, þar sem mágkona hans sótti um styrkinn fyrir hönd N4. Fram hefur komið að þingmaðurinn vék ekki sæti í málinu.

„Mér skilst að hann hafi ekki tekið þátt í umræðunni en hann samþykkti endanlegt nefndarálit,“ segir Katrín.

Katrín treystir sér aðspurð á þessu stigi ekki til að staðhæfa hvort um spillingu sé að ræða.

„En þetta er vandmeðfarið. Tengsl liggja víða hjá fjárlaganefnd þegar fjárlög íslenska ríkisins eru undir og ég held að nefndin þurfi að fara yfir þetta mál,“ segir Katrín.