Rólegt hefur verið yfir Reykjanesskaga síðustu vikuna. Jarðskjálftahrinan sem hófst 21. desember síðastliðinn hefur farið minnkandi dag frá degi.

Þrátt fyrir það fylgjast náttúruvásérfræðingar hjá Veðurstofu Íslands áfram grannt með stöðu mála á Reykjanesinu.

„Við erum alveg enn að tala um að hrinan sé í gangi, það er skjálftavirkni áfram,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Að sögn Elísabetar hefur enginn skjálfti yfir þremur mælst á landinu síðan fyrir áramót og er staðan fremur róleg þessa dagana.

„Við erum ennþá tilbúin í gos. Það dró úr skjálftavirkninni fyrir síðasta gos, þess vegna erum við enn í viðbraðgsstöðu,“ segir Elísabet og bætir við að það þurfi að líða aðeins lengri tíma þar til að hægt sé að lýsa yfir lokum á stöðunni.

Reykjanesskaginn er enn á óvissustigi almannaverna vegna jarðskjálftahrinunnar við Fagradalsfjall. Lýst var yfir óvissustigi á svæðinu 22. desember síðastliðinn, degi eftir að hrinan hófst.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað.