Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra greinir frá því að enginn sé nú í einangrun í landshlutanum en um er að ræða eina landshlutann þar sem enginn er í sóttkví eða einangrun.
„Það er ástæða til að fagna áfangasigri hjá okkur á Norðurlandi vestra,“ segir í tilkynningunni sem birt var á Facebook síðu lögreglunnar. „Tafla dagsins er einstaklega ánægjuleg og vonumst við að hún haldist svona áfram.“
Þrátt fyrir að enginn sé nú smitaður þar ítrekar aðgerðarstjórn að fólk þurfi áfram að vera vakandi og á varðbergi. Mikilvægt sé að halda áfram að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum.
Eins og staðan er í dag eru nú 176 manns í einangrun með virkt smit hér á landi en virkum smitum hefur farið fækkandi síðastliðna daga. Auk Norðurlands vestra er enginn í einangrun á Vestfjörðum en þar eru þó þrír í sóttkví. Þar á eftir kemur Austurland þar sem einn er í einangrun og einn í sóttkví.
Allar helstu tölur um stöðu faraldursins hér á landi má nálgast á covid.is.
Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra !! Það er ástæða til að fagna áfangasigri hjá okkur á...
Posted by Lögreglan á Norðurlandi vestra on Miðvikudagur, 25. nóvember 2020