Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, segir það úti­lokað að nokkur geti lofað því að það sé al­gjör­lega hægt að losna við veiruna. Nýjasta dæmið um það væri staðan í Nýja Sjá­landi en þar var að greinast smit að nýju.

„Okkar mark­mið er að tryggja sem best heil­brigði lands­manna, fylgja ráð­leggingum okkar færasta fólks þegar það kemur að sótt­varnar­sjónar­miðum og tryggja að sam­fé­lagið haldist gangandi,“ sagði Katrín á upp­lýsinga­fundi ríkis­stjórnarinnar í dag. Hún segir að þessi sjónar­mið hafi allt frá upp­hafi far­aldursins verið leiðar­ljós ríkis­stjórnarinnar.

Í fyrir­spurnum á fundinum, sagði Katrín að það væri ekki vitað hversu lengi við þurfum að hafa varan á en benti á að Ís­landi hefur tekist að halda sam­fé­laginu á­gæt­lega gangandi í gegnum far­aldurinn.

Ríkis­­stjórnin á­kvað á fundi í dag að eigi síðar en frá og með mið­viku­­deginum 19. ágúst næst­komandi verði allir komu­far­þegar skimaðir tvisvar við komuna til Ís­lands. Fyrri sýna­­taka verður á landa­­mærum, að því búnu ber komu­far­þegum að fara í sótt­kví í 4-5 daga þangað til niður­­­staða er fengin úr seinni sýna­töku.

„Það er enginn hér að lofa veiru­fríu sam­fé­lagi en við lítum svo á að til að ná betri stjórn á að­stæðum hér innan­lands og því smiti sem er í gangi þurfi að ráðast í þessa að­gerð,“ sagði Katrín á fundinum.

Allir far­þegar á leið til landsins þurfa að borga fyrir fyrri skimunina og verður miðað við sama fyrir­komu­lag og hefur verið, seinni skimunin verður hins vegar gjald­frjáls.

Spurð um hvort þessi á­kvörðun myndi ekki hafa slæm á­hrif á ferða­þjónustuna, til dæmis hluta­fjár­út­boð Icelandair, benti Katrín á að Ís­land væri nú á rauðum listum hjá ýmsum löndum vegna fjölda smita og það hefði einnig slæm á­hrif á ferðaáhuga ef við náum ekki tökum á smitum hér­lendis.