Ís­hellan í Gríms­vötnum hefur sigið um 70 metra undan­farna eina og hálfa viku. Að sögn RÚV hefur sigið verið lang­mest síðasta rúma sólar­hringinn, frá mið­nætti að­fara­nótt laugar­dags, en á þeim tíma hefur ís­hellan sigið um 40 metra.

Að sögn Huldu Rós Helga­dóttur, náttúru­vá­r­sér­fræðingi hjá Veður­stofunni, er enginn gos­ó­rói sjáan­legur við Gríms­vötn en stöku skjálftar hafa þó verið að mælast.

„Það eru vís­bendingar um að það sé að­eins farið að hægja á þessu,“ segir hún en bætir þó við að frekari upp­lýsinga sé þurfi áður en hægt sé að skera úr um það að fullu.

Vatna­mælinga­menn munu mæla rennsli í Gígju­hvísl í dag en ekki er búist við niður­stöðum hjá þeim fyrr en eftir há­degi. Síð­degis í gær var rennslið komið í um 2.600 rúm­metra á sekúndu sem sam­ræmdist spám vísinda­manna um fram­gang hlaupsins. Rennslið var þá orðið 26 sinnum meira en vana­lega á þessum árs­tíma. Búist er við því að mælingar í dag leiði enn hærri rennslis­tölur í ljós.

Veður­stofan fundar um á­standið í Gríms­vötnum klukkan 14 í dag og von er á til­kynningu að þeim fundi loknum.