Sjúklingurinn sem legið hefur inni á gjörgæslu síðastliðna daga var útskrifaður þaðan í gær. Sá hafði verið í öndunarvél í nokkra daga áður draga fór úr einkennum. Aðeins einn liggur nú inni á Landspítalanum vegna Covid-19 smits.

Alls greindust sex manns með staðfest Covid-19 smit hér á landi síðastliðinn sólarhring, þar af voru þrír í sóttkví. Einn þeirra sem greindist er búsettur í Vestmannaeyjum en aðrir á höfuðborgarsvæðinu.

„Við eigum eftir að sjá hvort þessi tilfelli í gær tilheyri sömu hópsýkingu og við höfum verið að fást við,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi Almannavarna. Smitið sé útbreitt og skjóti enn upp kollinum hér og þar í samfélaginu.

Aukning er í fjölda smita frá því í gær þegar fjórir einstaklingar greindust með veiruna hér á landi. Enginn þeirra smituðu var í sóttkví við greiningu.

Fleiri smit væntanleg

„Ég á von á því því miður að við þurfum að lifa með þessari veiru næstu mánuði og jafnvel lengur en það,“ sagði sóttvarnalæknir sem býst við að fleiri smit séu væntanleg á næstu dögum.

Þórólfur útskýrði hvað það þýddi fyrir honum að lifa með kórónaveirunni. „Að lifa með veirunni þýðir bæði að lifa með sýkingum af völdum veirunnar sem gengur nú og einnig að lifa með þeim ráðstöfunum sem henni fylgir.“

Mikilvægt væri að fylgja þeim sóttvarnareglum sem eru í gildi en einnig að hafa stöðugleika. „Í því felst að mínu mati að vera ekki sífellt að herða og slaka á reglum,“ bætti Þórólfur við. „Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt núna að slaka hægt og sígandi á þeim takmörkunum sem eru í gangi og reyna þannig að skapa sem mestan stöðugleika í samfélaginu.“

Fréttin hefur verið uppfærð.