Gríðarlegur skortur á geðlæknum hefur valdið því að mikill fjöldi fullorðins fólks, 18 ár og eldra, kemst ekki að í ADHD greiningu hjá Landsspítalanum fyrr en eftir mjög langan tíma.

Tengist geðröskunum og fíkn

Mikilvægi greininga og svo meðferðar er ótvírætt.

„Sá vandi sem einkennir ADHD auka líkur á öðrum geðröskunum eins og kvíða, depurð og fíknivanda. Þetta er því vissulega slæm staða,“ segir Halldóra Jónsdóttir, yfirlæknir Meðferðareiningar geðrofssjúkdóma hjá Landsspítalanum. Bið eftir greiningu þar getur verið yfir þrjú ár.

Geðlæknar hafa undanfarið fært sig yfir í ný geðheilsuteymi heilsugæslunnar. „Eins og staðan er nú er enginn geðlæknir í ADHD teymi Landspítala þannig að teymið getur einungis sinnt greiningum, ekki lyfjameðferð, því miður“, segir hún. Bæði dýrt og erfitt er einnig að komast að hjá geðlæknum á stofu.

Enginn klárar námið í bráð

„Þetta er alvarleg staða, en við höfum einfaldlega ekki geðlækna til að sinna þessari þjónustu. Það er töluverður fjöldi ungs fólks að sérhæfa sig í geðlækningum en engin sem klárar námið í bráð,“ segir Halldóra.

Þessi biðtími er ekki nýtilkominn. Frá árinu 2013 hefur sérstakt greiningarteymi séð um tvö hundruð greiningar á ári samkvæmt samningi. Þá þegar var þó kominn biðlisti, segir Halldóra og tilvísanir hafa auk þess verið langt umfram tvö hundruð árlega.

Geta ekki gefið út lyfjaskírteini

Greining og meðferð á vegum hins opinbera er sinnt á Landsspítala. Læknar vísa fólki í greiningarteymið til að byrja með og svo fer framhaldið eftir vilja einstaklingsins. Sé það ósk einstaklinga sem greinast að hefja lyfjameðferð eru það einungis geðlæknar og taugalæknar sem geta sótt um lyfjaskírteini og skrifað fyrstu lyfseðla. Gangi meðferðin vel getur eftirfylgd og endurnýjun færst til lækna í heilsugæslu.

Nú er þó svo komið að eftir greiningu á spítalanum er ekki hægt að fá lyfjaskírteini lengur vegna geðlæknaskortsins.

Mynd/ADHD samtökin

ADHD samtökin hafa undanfarið vakið athygli á því að fólk fái ekki hjálp þar sem geðlæknar anni engan veginn eftirspurn. Geðheilsuteymi heilsugæslunnar sinna einungis þeim sem þurfa á sérhæfðari þjónustu og meðferð að halda. Nokkuð margir geðlæknar hafa undanfarin misseri fært sig yfir í heilsugæslu þar sem verið er að bæta þjónustu við fólk með geðrænan vanda.