Diljá Mist Einarsdóttir, hæstaréttarlögmaður og aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, var óvæntur sigurvegari í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í gærkvöldi.

Hún kom eins og stormsveipur inn í baráttuna og landaði þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavík á eftir Guðlaugi og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra, og skildi þrjá þingmenn fyrir aftan sig.

Hún segir listann sigurstranglegan og tilfinninguna rosalega góða.

„Mér líst svakalega vel á þennan lista; sterkur hópur sem leiðir og mikill sigur fyrir utanríkisráðuneytið,“ segir Diljá í samtali við Fréttablaðið.

Sjallar fögnuðu vel í gærkvöldi en Diljá segist hafa farið snemma heim, bara beint eftir lokatölur enda hefur hún verið mikið fjarverandi frá heimilinu í baráttunni.

„Já, ég fór snemma heim en það var fagnað í gærkvöldi. Greinilega enginn friður frá okkur Sjálfstæðismönnum í borginni,“ segir hún og hlær.

Aðspurð um listann segir hún ljóst að Sjálfstæðismenn fái að minnsta kosti sex inn, þar sem Birgir Ármannsson er í baráttusætinu.

„Því Birgir Ármannsson kemst alltaf inn.“

Sigríður Á Andersen er líklega á útleið og Birgir Ármannsson er í baráttusætinu enn og aftur.

Birgir í baráttusæti og Sigríður ekki á blaði

Konur unnu mikinn sigur; þrjár eru í efstu fjóru sætunum. Hér má sjá niðurstöður prófkjörsins:

  1. sæti Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra með 3508 atkvæði.
  2. sæti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra með 4912 atkvæði í 1. – 2. sæti.
  3. sæti Diljá Mist Einarsdóttir með 2875 atkvæði samanlagt í 1. – 3. sæti.
  4. sæti Hildur Sverrisdóttir með 2861 atkvæði samanlagt í 1. – 4. sæti.
  5. sæti Brynjar Níelsson með 3311 atkvæði samanlagt í 1. – 5. sæti.
  6. sæti Birgir Ármannsson með 4173 atkvæði samanlagt í 1. – 6. sæti.
  7. sæti Kjartan Magnússon með 3449 atkvæði samanlagt í 1. – 7. sæti.
  8. sæti Friðjón R. Friðjónsson með 3148 atkvæði samanlagt í 1. – 8. sæti

Kjartan Magnússon hefur haldið sjöunda sætinu frá fyrstu tölum en Sigríður Á Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra og Friðjón R. Friðjónsson eigandi KOM skiptust á að verma áttunda sætið fram eftir kvöldi. Friðjón hafði betur að lokum og Sigríður er ekki á blaði.