Enginn flugstjóri er á vakt hjá Landhelgisgæslunni í dag vegna veikinda og því ekki hægt að senda þyrlu þeirra á vettvang slyss undir Eyjafjöllum fyrr í dag.
„Vegna veikinda var enginn flugstjóri á vakt og ekki reyndist unnt að kalla út flugstjóra á frívakt til að fullmanna útkallshæfa áhöfn,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Hann segir í samtali við Fréttablaðið að þeim þyki miður að þyrlusveitin hafi ekki getað annast útkall vegna umferðarslyss sem varð á Suðurlandi fyrr í dag en Lögreglan á Suðurlandi sagði í tilkynningu að einn hefði verið fluttur slasaður af vettvangi þegar bíll lenti utan vegar.
„Það var allt gert til að reyna að fá annan flugstjóra til að hlaupa í skarðið fyrir þann sem veiktist og átti að vera á vakt í dag, en það reyndist því miður ekki möguleiki,“ segir Ásgeir en alls starfa sex flugstjórar hjá Landhelgisgæslunni.
Og þið getið ekki leitað neitt annað?
„Nei, það er þannig. Flugstjórar eru takmörkuð auðlind og í þetta skiptið reyndist ekki hægt að kalla í annan flugstjóra á frívakt til að hlaupa í skarðið.“
Er þetta ekki nokkuð alvarlegt?
„Já, það er alvarlegt þegar þessi staða kemur upp.“