Enginn bjarmi sést á nýjum gervitunglamyndum af Geldingadölum. Myndirnar voru teknar í nótt og er fjallað um þær á Facebook-síðu Eldfjallafræði og náttúruváhóps Háskóla Íslands.

Þar segir að síðast hafi sést bjarmi frá eldstöðvunum á laugardag, 16. október, en frá þeim tíma hefur verið skýjað og ekki hægt að nema ljós með sama hætti áður. En skilyrði voru góð í nótt. Myndina er hægt að sjá hér að ofan.

Fyrr í vikunni var lækkað almannavarnarstig vegna eldgossins og fluglitakóði lækkaður úr appelsínugulu í gult eftir að ekkert hraunflæði hafði sést frá gígnum í mánuð, eða frá 18. september.

Á vef Veðurstofunnar segir að enn sjáist gas en þó í mjög litlu magni og að hitamerkin sjáist, en þó með lengra millibili.

„Hiti og glóð geta haldið áfram í vikur/mánuði jafnvel þótt ekkert nýtt hraun komi úr gígnum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Þar segir einnig að eldgosið verði ekki úrskurðað lokið í ófyrirsjáanlegri framtíð, þar sem munur á milli hlés og gosloka sést ekki fyrr en tíminn líður. Virknin getur hafist aftur í náinni eða fjarlægðri framtíð, og þá annað hvort á sama stað eða á nýrri sprungu.