Alþingi vísaði í gærkvöldi þingsályktunartillögu Pírata um vistmorð til ríkisstjórnarinnar. Ef tillagan nær fram að ganga verður vistmorð skilgreint sem brot á alþjóðalögum.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, flutti tillöguna en hann og flokkurinn fagna niðurstöðunni og telja hana fela í sér mikilvægan áfangasigur í baráttunni fyrir réttindum náttúrunnar og komandi kynslóða.

Náttúruspjöll framin á hverjum degi

Orðið vistmorð (e. ecocide) hefur verið til síðan á áttunda áratug síðustu aldar, en hefur ekki verið mikið notað nema á undanförnum árum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki enn viðurkennt vistmorð sem glæp. Eins og þjóðarmorð er alvarlegasti glæpurinn gagnvart fólki er vistmorð sá alvarlegasti gagnvart umhverfinu.

Umhverfisspjöll sem eru svo alvarleg að þau geta haft áhrif á frið og öryggi í heiminum.

Í fréttatilkynningu frá Pírötum kemur fram að tilgangur tillögunnar sé að tryggja réttarstöðu náttúrunnar svo hægt sé að berjast fyrir réttlæti í þágu náttúrunnar og framtíðarinnar. Náttúruspjöll séu framin á hverjum einasta degi af stórfyrirtækjum og stofnunum um allan heim.

Haft er eftir Andrési Inga að nú verði málið lagt í hendur ríkisstjórnarinnar til frekari útfærslu, „og við munum sjá til þess að enginn afsláttur verði gefinn af réttindum Jarðarinnar. Eftir alla málfundina, ráðstefnurnar, greinarskrifin og samtölin við aðgerðarsinna um allan heim er sérlega ljúft að fagna þessum merka áfangasigri.“

Alls kusu 33 þingmenn með tillögunni, 23 sátu hjá og sjö voru fjarverandi.