Meghan Markle þurfti að þola einelti, kynþáttafordóma og íhugaði að stytta sér aldur eftir vistina innan bresku konungsfjölskyldunnar. Megan og Harry Bretaprins opnuðu sig í tveggja tíma viðtali við Opruh Winfrey þar sem þetta kom meðal annars fram. Viðtalið var sýnt á Sjónvarpi Símans í gærkvöldi.
Um fátt er rætt annað en viðtalið enda héldu hjónakornin hvergi aftur af sér og svöruðu spurningum Winfrey meðal annars um ástæðu þess að þau stigu til hliðar, sem þau gerðu í janúar í fyrra.
Að sögn Meghan gerði konungsfjölskyldan ekki nóg til að vernda þau og segir hún að ástandið hafi versnað verulega eftir að þau giftust í maí 2018. Þá sagði hún að konungsfjölskyldan væri tilbúin til að ljúga til þess að vernda aðra fjölskyldumeðlimi í þeirra stað.
Meghan, sem á nú von á sínu öðru barni með Harry, ræddi einnig um þá ákvörðun að Archie fengi ekki titilinn prins því hún hefði óttast að hann fengi ekki vernd. Þá sagði hún að innan fjölskyldunnar hefði verið rætt hver hörundslitur hins ófædda Archies yrði og ákveðnir fjölskyldumeðlimir hefðu komið því á framfæri við Harry.
Oprah sagði í gær í viðtali á NBC að það hefðu ekki verið drottningin eða Filippus, svo mikið vissi hún.
Skilja mátti Meghan sem svo að áhyggjur hefðu verið af því innan hirðarinnar að Archie yrði of dökkur á hörund og sagði hún botninum hafa verið náð á þeim tímapunkti.
Í viðtalinu greindi Meghan frá því að daglegt líf hefði reynst henni gríðarlega erfitt innan konungsfjölskyldunnar og sagðist hafa upplifað mikinn einmanaleika þar sem töluverðar hömlur voru settar á nánast allt sem hún gerði. Þá sagðist hún stundum ekki hafa viljað lifa lengur vegna þessa.
Aðspurð hvort hún hefði íhugað sjálfsvíg sagði hún svo vera. Hún vísaði til myndar sem var tekin af henni og Harry á viðburði í Royal Albert Hall meðan hún gekk með Archie.
„Rétt áður en við þurftum að fara, þá hafði ég rætt um þetta við Harry um morguninn,“ sagði hún með tárin í augunum. Hún vísaði þar til sjálfsvígshugleiðinga sinna. Hún sagðist hafa farið með Harry á viðburðinn því henni fannst hún ekki geta verið ein en á myndinni sést Harry halda fast í höndina á konu sinni.
Harry bætti svo við að kynþáttafordómar hefðu hrakið þau frá Englandi og að drottningin hefði verið of upptekin til að hitta hann þegar myndbrot fóru að birtast í gærkvöldi. Um er að ræða myndbrot sem voru ekki í viðtalinu en fóru að birtast eftir að það var sýnt í Bandaríkjunum.