Engar áætlanir eru til um hvernig brugðist verður við því ef framboð á heitu vatni stöðvast til sveitarfélaga á Suðurnesjum vegna eldsumbrota eða jarðhræringa. Júlíus Jón Jónsson, forstjóri HS Veitna, segir að verkefnið sé flókið og illmögulegt sé að undirbúa allar sviðsmyndir.

„Það er helst heita vatnið sem við óttumst. Vandinn er ekki eins mikill ef kalda vatnið færi því við getum nálgast það úr öðrum vatnsbólum skammt frá. Það yrðu þó vissulega truflanir til skamms tíma. Enn sem komið er eru engar áætlanir uppi um hvernig við leysum vandann ef framleiðsla í Svartsengi myndi stöðvast,“ segir Júlíus.

HS Veitur eiga og reka dreifikerfi fyrir heitt vatn í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum en fyrirtækið útvegar einnig Grindavík, Reykjanesbæ, Garði og flugstöðvarsvæðinu ferskvatn. Aðalvatnstökusvæðið er gjá í hrauninu í Lágum sem er um þremur kílómetrum norður af Svartsengi. Ferskvatninu er síðan dælt á Svartsengi þar sem það er hitað upp með jarðhitagufu.

Júlíus leggur þunga áherslu á að rétt sé að halda ró sinni því afar litlar líkur séu á að allt færi á versta veg og framleiðsla á Svartsengi myndi leggjast af. Möguleg viðbrögð við slíkum hamförum þarf þó að ræða. „Það er mjög erfitt að vera undirbúinn undir allar sviðsmyndir og einnig þarf að hafa í huga hversu langt sé réttlætanlegt að ganga í slíkum undirbúningi. Það er erfitt að réttlæta útgjöld í aðra varavirkjun sem væri til taks ef allt færi á versta veg.“

HS Veitur fá vatnið frá HS Orku og eru fyrirtækin í nánu samstarfi varðandi næstu skref ásamt fulltrúum yfirvalda. „Við fylgjumst náið með framvindu mála. Við höfum fundað einu sinni um stöðuna og reiknum með að funda aftur í dag,“ segir Júlíus.