Lítil sem engin úrræði eru í boði fyrir sjálfstæða leikhópa sem orðið hafa af tekjum vegna COVID-19 faraldursins. Kvenfélagið Garpur er einn þeirra sjálfstæðu hópa sem var gert að skella í lás vegna samkomutakmarkana og hafa þau ekki fengið neinn stuðning frá stjórnvöldum vegna tekjutaps síðasta árs.
„Núna veit ég að menntamálaráðherra og ríkisstjórnin eru búin að vera að reyna, og líka BHM og FÍL og fleiri aðrir, sem hafa verið að vinna að því að ná utan um sem flesta hópa í samfélaginu. Hvort sem það eru einyrkjar eða tónlistarfólk en þetta er hópur sem að fellur algjörlega á milli,“ segir leikkonan Sólveig Guðmundsdóttir sem fer fyrir Kvenfélaginu Garpi.
Garpur frumsýndi leikritið Er ég mamma mín? eftir Maríu Reyndal í febrúar 2020 og gátu þau sýnt verkið tíu sinnum áður en þeim var gert að skella í lás þegar samkomubann var sett á í mars. Leikhópurinn æfði sýninguna upp launalaust síðastliðið haust en gátu aðeins sýnt eina sýningu áður en leikhúsum var aftur lokað vegna seinni bylgju COVID-19.
Sjálfstæðir leikhópar geta ekki sótt um lokunarstyrki frá stjórnvöldum því langflestir þeirra eru skilgreindir sem áhugafélög en ekki sem fyrirtæki og geta því ekki reitt fram gögn sem sýna fram á tekjutengdan missi. Svo til einu úrræðin sem hafa verið í boði fyrir sjálfstæða leikhópa eru aukaframlög í verkefnasjóði á borð við sviðslistasjóð. Slíkir sjóðir eru þó samkeppnissjóðir og einungis er hægt að sækja um þar fyrir ný eða áframhaldandi verkefni en ekki vegna tekjutaps.

Öll sviðslistasenan útilokuð
„Hóparnir eru í raun bara einstaklingar og eini ávinningurinn er starf fyrir þessa hópa. Það verður ekki til hagnaður í menningarkerfinu yfir höfuð. Menning er aldrei rekin með hagnaði svo að ég viti til, nema kannski í bíómyndum. Þannig að í rauninni er lífsviðurværi þessa fólks ekki til staðar og það eru fá úrræði,“ segir Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Tjarnarbíós og Sjálfstæðu leikhúsanna.
Friðrik tók saman gögn um tekjutap sjálfstæðra leikhópa frá 15. mars til 15. apríl 2020 en samkvæmt honum var miðasölutap á því tímabili á bilinu 40-50 milljónir fyrir þær 19 sýningar sem þurftu að hætta starfsemi. Þar er einungis um að ræða sjálfstæðar sýningar en ekki sýningar á vegum stofnanaleikhúsa á borð við Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið.
Stærstur hluti af miðasölutekjum fer í launakostnað og því er ljóst að um gífurlegan tekjumissi er að ræða fyrir sviðslistafólk þá mánuði sem leikhúslífið lá í lamasessi á síðasta ári. Tjarnarbíó þurfti til að mynda að segja upp meirihluta af sínu starfsfólki í byrjun þessa árs en Friðrik segir að þau verði öll ráðin aftur um leið og hagur vænkar.
„Þessi úrræði, tekjufallsstyrkir, lokunarstyrkir og hlutabótaleiðin, í rauninni hefur öll sviðslistasenan verið útilokuð frá þessu og það er náttúrlega bara út af því að þetta eru allt menningarfélög sem bera ekki ótakmarkaða skattskyldu, heldur takmarkaða skattskyldu. Þetta er það rekstrarform sem okkur hefur verið ráðlagt í gegnum árin og núna kemur það okkur í koll,“ segir Friðrik en bætir þó við að nú sé farið að birta yfir leikhúslífinu með auknum tilslökunum.