„Einn kjörstjórnarmaður var í um það bil hálftíma með kjörgögnunum aleinn, salurinn ólæstur að hluta til og kjörgögnin á víða og dreif um talningasalinn, segir Karl Gauti Hjaltason sem hefur kært endurtalninguna í norðvestur kjördæmi. Hann hafi nýjar heimildir fyrir því að einn maður í yfirkjörstjórn í kjördæminu hafi verið sjálfur búinn að finna atkvæði sem þóttu rangt talin – áður en aðrir komu að málum.

Missti sætið eftir endurtalningu atkvæða

Karl Gauti Hjaltason sat á Alþingi fyrir Miðflokkinn í Suðurkjördæmi en náði ekki endurkjöri úr suðvestur kjördæmi, eftir endurtalninguna í Borgarnesi. Karl Gauti var í viðtali hjá Lindu Blöndal á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld, miðvikudag.

„Það vekur athygli að gerðabókin hafi ekki verið undirrituð og meintur ágreiningur sem hafi verið á milli kjörstjórnarmanna ekki verið bókaður neins staðar“

„Engin undirritaði í svonefnda gerðarbók talningar í Borgarnesi,“ segir Karl Gauti um fundargerðarbók yfirkjörstjórnar í norðvestur kjördæmi vegna endurtalningar atkvæða þar sem varð til þess að hann og fjórir aðrir misstu þingsæti sín eftir að fyrsta niðurstaða úr kjördæminu var kunngjörð eftir Alþingiskosningarnar.

„Það vekur athygli að gerðabókin hafi ekki verið undirrituð og meintur ágreiningur sem hafi verið á milli kjörstjórnarmanna ekki verið bókaður neins staðar. „En þetta er einn af þeim hlutum sem lögregla þarf að upplýsa í þessu máli og ég vonast til að þeirra rannsókn sé vönduð vegna alvarleika þessa máls,“ segir Karl Gauti.

Karl Gauti kærði sem þekkt er endurtalninguna til lögreglu og einnig til kjörnefndar og hefur Karl Gauti safnað fleiri gögnum vegna málsins. „Menn verða að átta sig á því að talning atkvæða er lögbundið ferli og mjög áréttað í kosningalögunum hvernig á að fara fram,“ áréttar Karl Gauti sem til 20 ára var formaður yfirkjörstjórnar í suðurkjördæmi þar sem hann var sýslumaður á Suðurlandi.

Endurtalningin

Endurtalning átti sér stað um hádegisbil og eftir hádegi í Borgarnesi á sunnudeginum eftir kjördag.

„Það vekur athygli að gerðabókin hafi ekki verið undirrituð og meintur ágreiningur sem hafi verið á milli kjörstjórnarmanna ekki verið bókaður neins staðar"

Nú þegar eru nýir þingmenn komnir á námskeið sem nýliðar á Alþingi fara í gegnum segir Karl Gauti: „Það er auðvitað ekki gott að sjá að þetta sé eins og orðinn hlutur sem ég tel alls ekki vera vegna þess að endurtalning atkvæða, þetta er ekki sjálfsagður hlutur og allra síst þegar að fjölmörg ákvæði kosningalaga eru brotin við þá endurtalningu og í aðdraganda hennar.“

Það segi í kosningalögum hvernig talning skuli fara fram að viðstöddum kjörstjórnarmönnum öllum.

Reglurnar mjög skýrar

Karl Gauti segir reglurnar afar skýrar„Það er auðséð að innsiglun atkvæðanna var ekki eftir að yfirkjörstjórn yfirgefur talningasal að morgni sunnudags, það er mjög alvarlegur ágalli. Það er eins og rauður þráður, liggur í gegnum öll kosningalögin að þú átt að innsigla kjörgögn, kassana, atkvæðin, allt sem fer á milli staða eða er geymt, það eru ströng ákvæði um að þetta eigi alltaf að innsigla.“

„Það er auðvitað ekki gott að sjá að þetta sé eins og orðinn hlutur“

Umboðsmenn ekki viðstaddir

Hann nefnir dóm hæstarréttar frá 2011 og þátt umboðsmanna flokkanna sem eiga að vera viðstaddir talningar: „Svo varðandi umboðsmenn framboða sem eru þarna nánast tíu þeim gefst öllum kostur á að senda umboðsmann og ef þeir gera það ekki eða er ekki boðið að þá á yfirkjörstjórn að skipa þeim umboðsmann. Þetta var eitt af þeim atriðum sem Hæstiréttur 2011 fann að sem verulegan annmarka á stjórnlagaþingskosningunni.“

Í endurtalningunni voru ekki umboðsmenn allra framboða viðstaddir.

"Ég mun ekki sætta mig við þetta"

„Þegar þetta er komið inn í sali Alþingis þá er þetta orðið pólitískt líka“ segir Karl Gauti. Aðspurður hvort hann treysti ekki ferlinu þar innan segir hann þó svo vera. „En málið er bara alvarlegra en svo að þetta sé eitthvað pólitískt ágreiningsefni, þetta er lögfræðilegt, þetta varðar traust þjóðarinnar á kosningum.“

„Ég mun ekki sætta mig við þetta“, segir hann en tekur fram að hann hafi ekki enn hugleitt hvaða leið hann fari - verði svo að endurtalningin verði staðfest af Alþingi. .