Í 13. grein reglugerðar um skotelda frá 2017, segir um tilkynningaskyldu að bráðamóttöku viðkomandi sjúkrahúss beri að tilkynna málið þegar í stað til lögreglu og Neytendastofu. Sömuleiðis beri sjúkrahúsinu skylda til að tilkynna Neytendastofu þegar gallaðra skotelda verður vart í umferð. Svava G. Ingimundardóttir er lögfræðingur hjá markaðseftirliti Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem tekið hefur við þessum málaflokki af Neytendastofu með lagabreytingu síðan í byrjun október.

Hún segir stofnunina ekki hafa aðgang að neinni samantekt eða heildartölfræði um slys af völdum skotelda.

Reiða sig á ábendingar

„Í gegnum árin hefur verið óskað eftir upplýsingum frá bráðamóttöku vegna slysa af völdum skotelda. Vegna anna bráðamóttöku á höfuðborgarsvæðinu höfum við fengið þau svör að þau hafi ekki haft tök á því að taka slíkar upplýsingar saman,“ segir Svava. Hún segir HMS hafa fengið upplýsingar um slys frá öðrum heilbrigðisstofnunum en stundum hafi vantað upplýsingar um skoteldinn og gerð hans. „Við höfum einnig óskað eftir nánari upplýsingum um slys frá almenningi þegar okkur hafa borist fregnir af slysum, til dæmis í gegnum fjölmiðla“ segir hún.

Stofnunin þarf þess vegna að reiða sig á ábendingar fólks. Svava nefnir sem dæmi að eitt árið hafi verið nokkuð um slys vegna handblysa. „Síðan kom í ljós vegna ábendinga, bæði frá heilbrigðisstofnun og einstaklingum að um var að ræða ákveðna tegund af handblysum sem í kjölfarið voru tekin úr sölu.“

Hún segir því ljóst að slíkar ábendingar geti skipt sköpum við að koma í veg fyrir frekari slys.