Ekki er komin tímasetning frá Landsneti á því hvenær viðgerð geti hafist og hve lengi hún mun standa yfir á Vestmannaeyjastreng 3 sem bilaði í byrjun vikunnar. Rafmagnsleysið í Vestmannaeyjum var rætt á bæjarráðsfundi í gær.

Nú er ljóst að bilun varð á Vestmannaeyjastreng 3 til Eyja um það bil einn kílómetra frá landi. Rafmagn til Vestmannaeyja er núna flutt um Vestmannaeyjastreng 1 og varaaflsvélar HS-veitna og færanlegar varaflsvélar frá Landsneti sem eru staðsettar í Eyjum sjá um raforkuþörf þangað til að viðgerð verður lokið á Vestmannaeyjarstreng 3.

Landsnet kom með tvær færanlegar varaaflsvélar til Eyja á fimmtudag, til viðbótar við þær þrjár sem fyrir eru í Eyjum.

Í bókun bæjarráðs segir að bæjarráð leggi áherslu á að nægt rafmagn verði tryggt í Vestmannaeyjum á meðan viðgerð á VM3 stendur yfir. „Fram undan er loðnuvertíð sem er mjög mikilvæg bæði fyrir Vestmannaeyjar og um leið þjóðarbúið allt,“ segir í bókun bæjarráðs.

Bæjarráð leggur jafnframt áherslu á að lagningu Vestmannaeyjastrengs 4 (VM4) verði flýtt og farið í þá framkvæmd eins fljótt og auðið er til að tryggja afhendingaröryggi rafmagns til Vestmannaeyja til framtíðar.