Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir þau þrjú smit sem greindust utan sótt­kvíar í dag sýna fram á að veiran sé mun út­breiddari í sam­fé­laginu en áður var talið.

„Þetta er á­hyggju­efni sér­stak­lega af því að það eru engin tengsl á milli þessara smituðu ein­stak­linga og engin tengsl við fyrri smit,“ út­skýrir Þór­ólfur. „Þetta segir manni að veiran er þarna úti og getur skotið upp kollinum fyrir­vara­laust.“

Þór­ólfur telur það vera erfitt að segja til um hvort til­slakanir hafi komið of snemma miðað við smit­tölur dagsins. „Það er kannski ekki á­stæða til að fara að taka í hand­bremsuna aftur einn tveir og þrír en við þurfum að sjá hvað gerist á næstu dögum.“

Fara of seint í sýnatöku

Það geti tekið smá tíma fyrir veiruna að valda hóp­sýkingu eða bylgju en það geti gerst haldi fólk ekki á­fram að gæta að sótt­vörnum. „Þó að við séum að slaka á þessum að­gerðum sem hafa verið í gangi er mikil­vægt að fólk hagi sínum sótt­vörnum líkt og áður.“

Þá er veru­lega mikil­vægt fyrir fólk að fara í sýna­töku um leið og það byrjar að finna fyrir ein­kennum. „Því miður erum við að sjá það að fólk er að bíða í marga daga áður en það fer í skimun og er þannig búið að út­setja fjölda fólks fyrir smiti áður en það mætir.“

Það er ekki víst að fjöldi smita sem greindust utan sótt­kví í dag séu vísir að nýrri bylgju að mati Þór­ólfs. „Nýjar bylgjur byrja iðu­lega með smærri hóp­sýkingum áður en farið er að tala um bylgju. Þegar litlir hópar fara að greinast og fleiri smitast á hverjum degi er fyrst hægt að tala um að ný bylgja gæti verið að hefjast.“

Óvissa með þriðju sprautuna

Bólu­setningar gegn veirunni ganga þó sam­kvæmt á­ætlun og lætur Þór­ólfur sér fátt finnast um um­mæli for­stjóra Pfizer um nauð­syn þriðju bólu­setningar með bólu­efni Pfizer. „Hann veit bara ekki neitt hvort það þurfi en auð­vitað óttast margir þetta.“

Ó­mögu­legt sé að vita hvort reglu­bundnar bólu­setningar gegn Co­vid-19 verði teknar í gagnið. „Það fer eftir því hvort ný af­brigði af veirunni fari að greinast sem nú­verandi bólu­efni vernda ekki gegn og hversu lengi verndin endist.“ Þessum spurningum verði ekki svarað til fullnustu fyrr en hægt sé að mæla slíkt.

Þór­ólfur hvetur lands­menn til að ganga hægt inn um gleðinnar dyr um helgina. „Það skiptir sköpum að við förum ekki að missa þetta úr höndunum aftur.“ Mikil­vægt sé að fólk gæti að sér. „Veiran er þarna úti og hún er meira út­breidd en við höldum, það er nokkuð ljóst.“