Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, smit­sjúk­dóma­læknir, greindi frá því á upp­lýsinga­fundi Al­manna­varna í dag að bólu­efni Jans­sen yrði dreift hér á landi í næstu viku og að engin tak­mörk yrðu á því hver fengi efnið.

„Við höfum fengið niður­stöðu frá Evrópsku Lyfja­stofnuninni um að hægt sé að nota Jans­sen bólu­efnið,“ út­skýrði Kamilla.

Lyfja­­stofnun Evrópu hafa borist þó nokkrar til­kynningar um myndun blóð­tappa í kjöl­far bólu­­setningar með bólu­efni Jans­sen. Auka­verkanir virðast þó vera mun sjald­gæfari en í til­viki AstraZene­ca.

Meiri hætta vegna Covid

Danir og Norð­menn hafa tekið á­kvörðun um að fresta bólu­setningu með bólu­efni Jans­sen um ó­til­tekinn tíma vegna téðra auka­verkanna.

„Það er ekki svo að á­hættan sé svo mikil að þetta sé gagns­laust bólu­efni, því á­hættan af CO­VID sýkingu er miklu meiri,“ segir Kamilla.

Ekki er vitað hverjir eru í á­hættu­hóp fyrir myndun blóð­tappa vegna efnisins að sögn Kamillu. Þau sem séu mögu­lega í á­hættu munu þó ekki fá Jans­sen bólu­efnið en það stendur ekki til að tak­marka að­gang að efninu út frá aldur­hópum.

Lækka aldur fyrir AstraZeneca

Kamilla bendir á að tíðni auka­verkanna vegna bólu­efnisins séu mun hærri í Noregi en annars­staðar. „Í Noregi hafa þeir séð til­felli sem voru mjög al­var­leg og í hærri tíðni heldur en aðrar þjóðir en þeir verða að taka sínar á­kvarðanir byggðar á sinni reynslu og við tökum þær byggðar á okkar reynslu og gögnum annars staðar frá.“

Kamilla greindi einnig frá því á fundinum að aldurs­tak­mörk fyrir þau sem fá bólu­efni AstraZene­ca verði lækkuð.

Hún taldi ó­víst að auknar líkur væru á auka­verkunum í kjöl­far bólu­setningar með efninu eftir kyni. Á­stæða þess að fleiri konur hafi hlotið auka­verkanir gæti ð hennar mati stafað af því að heil­brigðis­starfs­menn hefðu verið bólu­settir með efninu í stórum stíl og fleiri konur starfi í geiranum, því hafi fleiri konur verið bólu­settar með efninu en karlar.

Spurð hvenær eigi að hefja bólusetningu á börnum sagði Kamilla að Pfizer væri langt kominn með rannsóknir á börnum á aldrinum 12 til 15 ára og að þau bíði niðurstaða úr rannsóknunum. Hún segir að þegar niðurstöður liggja fyrir auk markaðsleyfis í Evrópu verði hægt að bólusetja fyrsta áhættuhópa á þessu aldursbili og svo önnur börn.