Enginn greindist með Covid-19 innanlands síðastliðinn sólarhring og er það í fyrsta sinn síðan 14. apríl síðastliðinn. Í gær greindust tvö innanlandssmit greindust og voru bæði í sóttkví við greiningu líkt og dagana þar á undan.

Alls eru nú 58 í einangrun með virkt smit á landinu og 120 eru í sóttkví en það fækkar bæði í einangrun og sóttkví milli daga.

Á landamærunum greindust tveir farþegar með veiruna, þar af var einn með mótefni og beðið er eftir mótefnamælingu í hinu tilvikinu. Alls voru tekin 802 sýni á landamærunum í gær.

Bólusetningardagatalið á réttri braut

Stefnt er að því að bólusetja 24 þúsund einstaklinga í vikunni með öllum fjórum tegundum bóluefna sem í boði eru hér á landi.

Samtals fá um 12 þúsund bóluefni Pfizer, sem skiptist jafnt í fyrri og seinni bólusetningu. Sjö þúsund fá bólusetningu með bóluefni Moderna og fjögur þúsund verða bólusett með Janssen bóluefninu. Þá verða 1500 einstaklingar bólusettir með bóluefni AstraZeneca.

Hraðar hefur gengið að bólusetja karla en konur, til að mynda er nú þegar búið að bólusetja alla karlmenn sem tilheyra forgangshópi sjö. Það eru karlmenn með undirliggjandi sjúkdóma og áhættuþætti vegna Covid-19. Ástæða þess er að bóluefni AstraZeneca er ekki gefið konum yngri en 55 ára.