Fjármagn fékkst ekki til þess að koma af stað tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu á Suðurlandi eins og boðað hafði verið á síðasta ári. Fjármagn hefur ekki fengist til verkefnisins og útköllum fækkað.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa þrýst á um fasta sjúkraþyrlu á Suðurlandi síðan árið 2017. Landshlutinn er afskaplega víðfeðmur og mikil umferð á vegunum vegna ferðamannastraums. Viðbragðstíminn og álag hefur því verið meira en góðu hófi gegnir. Eyjamenn eru meðal þeirra sem þrýst hafa á sjúkraþyrlu og vilja hafa aðsetur hennar í Vestmannaeyjum. Selfoss hefur einnig verið nefndur sem aðsetur.

Heilbrigðisráðherra og fagráð sjúkraflutninga hafa lýst yfir vilja til að hefja tveggja ára tilraunaverkefni, sem átti að byrja síðasta sumar eftir útboð, en af því hefur ekki orðið.

„Vegna sérstakra aðstæðna í þjóðfélaginu undanfarna mánuði hefur fjármagn ekki verið tryggt og frekari undirbúningur hefur því ekki farið fram. Fækkun ferðamanna í kjölfar faraldursins hefur auk þess valdið því að þrýstingur vegna fjölda ferðamanna og slysa á Suðurlandi hefur minnkað,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Kemur fram að sjúkraflutningum hafi fækkað um fjögur prósent milli áranna 2018 og 2019 og tíu prósent árið 2020. „Flutningarnir dreifast jafnar yfir árið 2020 og ekki er um að ræða þann topp í fjölda flutninga yfir sumartímann sem algengur var á árunum á undan,“ segir í svarinu.

Ráðherra hefur rætt við Eyjamenn um málið og segist hafa fullan skilning á óþreyju þeirra. Fækkun ferðamanna sé tímabundin og unnið verði að því að koma verkefninu af stað.