Allt að 50 grindhvalir hlupu á land en þyrluflugmaðurinn David Schwarzhans kom auga á hræin í útsýnisflugi með ferðamönnum í gær. Er þetta mesti fjöldi hvala sem hlaupið hefur á land frá árinu 2013.

„Þetta er nánast árlegur viðburður hér á Íslandi og það hefur tekist að bjarga þeim stundum með því að ýta þeim frá eða fæla þá í burtu. En það er orðið óhuggulegt hvað þetta gerist oft,“ segir Róbert Arnar Stefánsson líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands.

Heimamenn átu grindhvalina

Svo marga hvali hefur ekki rekið á Íslandsstrendur frá árinu 2013. Þá strönduðu álíka margir grindhvalir í fjörunni við Rif og Ólafsvík á Snæfellsnesi. Heimamenn skáru þá hluta af þeim hvölum og voru hræin urðuð.

„Hluti af þeim var urðaður og hluti af þeim étinn,“ segir Róbert.

Hljóðmengun, offjölgun og loftslagskrísa

Róbert segir margar tilgátur um hvers vegna svo margir hvalir synda í land.

„Það eru ýmsar tilgátur en það er engin lausn komin. Þetta eru mikil hjarðdýr og forystudýrin hafa ruglast í ríminu sem gerist gjarnan við sandstrendur,“ segir Róbert.

Fyrr á árinu syntu 70 grindhoraðar sandlægjur á land á vesturströnd Bandaríkjanna. Haffræðingar telja að hvalina hafi rekið á land, annaðhvort vegna loftslagskrísunnar eða vegna offjölgunar.

„Þetta gæti tengst hljóðmengun í hafinu vegna heræfinga þar sem sendir eru sterkir hljóðpúlsar. Svo gætu lífræn mengunarefni safnast upp í langlífum dýrum sem þessum og getur það valdið taugaskemmdum í eldri forystudýrum. En það gætu verið margar orsakir,“ segir Róbert.

Þyrftu þyrlu til að kom­ast á Löngufjörur

Jörðin þar sem hvalina rak á land er í einkaeigu og er það því á ábyrgð landeiganda að grípa til aðgerða vegna hvalanna. Hafrannsóknastofnun hefur íhugað að fara á staðinn en aðstæður eru erfiðar. Ekki er hægt að nálgast svæðið nema í þyrlu eða á hestbaki. Hvalirnir eru margir og erfitt er að fjarlægja hræin. Vanalega eru hvalir urðaðir eða fjarlægðir, þá sérstaklega ef lyktin verður til ama en engin almenn vinnuregla er til um hvernig eigi að eiga við hræin.

„Stundum eru hvalir urðaðir á staðnum en ég veit ekki til þess að það séu almennar vinnureglur um það,“ segir Róbert Arnar Stefánsson líffræðingur og forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands.