Þann 27. apríl síðast­liðinn tók ný reglu­gerð um að­gerðir á landa­mærunum gildi hér á landi en stærsta breytingin þar er sú að öllum far­þegum sem koma frá há­á­hættu­svæðum skylt að fara í sýna­töku við komuna til landsins og að dvelja á sótt­varnar­húsi burt séð frá því hvort fólk sé með bólu­setningar­vott­orð eða vott­orð um fyrri smit.

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segist á­nægður með nýju reglu­gerðina en segir að það gæti þurft að skerpa betur á sumu varðandi fram­kvæmd hennar.

„Það tekur náttúr­lega að­eins tíma að gera allt sem reglu­gerðin kveður á um, sér­stak­lega með þetta harðara eftir­lit, það er byrjað en við eigum eftir að fast­setja það að­eins frekar. Að öðru leyti er þetta allt bara í góðu horfi finnst mér,“ segir Þór­ólfur.

Að­spurður um hvort honum finnist reglu­gerðin hafa gengið nógu langt segir Þór­ólfur:

„Ég held að þetta séu alveg nógu harðar reglur. Við erum að reyna með þessu að ná þeim sem eru með smit og halda þeim til hlés en að leyfa öðrum að koma inn, frekar heldur en að banna öllum að koma.“

Ó­víst hvort bólu­setja þurfi ár­lega gegn veirunni

Mikill gangur hefur verið í bólu­setningum undan­farið og hafa nú 36.228 ein­staklingar verið full­bólu­settir auk þess sem 109.409 ein­staklingar hafa fengið að að minnsta kosti einn skammt af bólu­efni. Sú spurning hefur þó reglu­lega komið upp bæði hér­lendis og er­lendis hvort bólu­setja þurfi fólk ár­lega við sjúk­dómnum. Þór­ólfur segir engin plön vera uppi varðandi slíkar endur­bólu­setningar hér á landi.

„Nei, við höfum nú ekki lagt upp með það enn þá að gera það og ég held að menn séu nú bara í óða­önn að reyna að tryggja sér bólu­efni fyrir bólu­setninguna núna, frekar en að hugsa mörg ár fram í tímann. En það er heldur ekkert vitað hvort það þurfi að gera það eða ekki og það er bara eitt­hvað sem menn þurfa að sjá hvernig verður. Hvort að sú fram­kvæmd ef á að tryggja sér bólu­efni ár­lega, hvort að það verði þá gert á sömu for­sendum og núna, það er að segja í sam­starfi við Evrópu­sam­bandið eða hvort að hvert land fyrir sig geri það, það er bara alveg ó­ljóst,“ segir Þór­ólfur og bætir við að allt slíkt tal sé meira og minna byggt á vanga­veltum.

Í vikunni flutti breska blaðið The Guar­dian fregnir af því að breska ríkis­stjórnin hefði pantað 60 milljón skammta af bólu­efni Pfizer/BioN­Tech fyrir endur­bólu­setningar frá og með haustinu. Þór­ólfur segist ekki kannast við þær á­ætlanir.

„Ég hef ekki heyrt á­byrga aðila tala um það enda vita Bretar ekkert meira um það frekar en aðrir hvort að þessi veira muni ganga næstu árin eða hvernig það verður. En þetta náttúr­lega kemur svo­lítið í ljós núna þegar menn fara að klára bólu­setningar. Þá fara menn að sjá betur fyrir sér bæði hvernig veiran verður, hvernig bólu­efnin virka gegn öllum þessum veiru­af­brigðum sem eru að greinast og þá verður þetta meira knýjandi spurning.“

Engar ráð­stafanir varðandi ind­verska af­brigðið

Far­aldurinn hefur verið í frjálsu falli á Ind­landi en 386,452 ný smit greindust þar í landi í dag, sem er nýtt heims­met. Að­spurður um hvort ein­hverjar ráð­stafanir hafi verið gerðar á Ís­landi varðandi ind­verska af­brigði veirunnar sem greindist ný­lega á Bret­landi segir Þór­ólfur svo ekki vera.

„Það eru engar ráð­stafanir hér með það sér­stak­lega en þeir sem eru að koma frá Ind­landi koma frá á­hættu­svæðum og þurfa því að fara í sótt­varnar­hús. Það hefur ekki komið neitt sér­stakt um það að þau veiru­af­brigði sem eru að ganga á Ind­landi séu eitt­hvað öðru­vísi heldur en önnur af­brigði, ég hef ekki séð neitt um það nema bara ein­hverjar spekúla­sjónir. Þannig við erum ekki að gera neinar sér­stakar ráð­stafanir út af því,“ segir Þór­ólfur.