Enginn greindist með kórónaveiruna sem veldur COVID-19 sjúkdóminum innanlands í gær en þetta kemur fram á vef covid.is. Síðastliðnar tvær vikur hafa þrjú smit greinst innanlands en smit sem greint var frá í gær reyndist gamalt. Enginn hefur greinst utan sóttkvíar frá 1. febrúar.

Einstaklingum í einangrun fækkar um fjóra á milli daga og eru nú aðeins níu í einangrun. Einstaklingum í sóttkví fjölgar aftur á móti um fjóra milli daga og eru nú átta í sóttkví. Rúmlega 450 sýni voru tekin innanlands í gær.

Einn greindist með veiruna á landamærunum í gær og reyndist það vera virkt smit. Alls eru nú 905 manns í skimunarsóttkví en tæplega 140 sýni voru tekin á landamærunum í gær.

Hátt í níu þúsund bólusettir í vikunni

Bólusetning fer áfram fram í dag en 8,9 þúsund manns verða bólusettir í vikunni. Einstaklingar yfir 81 árs aldri fá þar sinn fyrsta skammt af bóluefni Pfizer og starfsmenn hjúkrunar- og dvalarheimila fá sinn fyrsta skammt af bóluefni AstraZeneca.

Alls er búið að bólusetja 12.644 einstaklinga að fullu með bóluefnum Pfizer eða Moderna, og er bólusetning hafin hjá 8.547 einstaklingum til viðbótar. Rúmlega 90 einstaklingar fengu sinn fyrsta skammt af bóluefni AstraZeneca í gær.

Lyfjastofnun hefur fengið 400 tilkynningar vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19. Af þeim tilkynningum hafa 178 verið vegna bóluefnis Pfizer, þar af 18 alvarlegar, 133 vegna bóluefnis Moderna, þar af þrjár alvarlegar, og 89 vegna bóluefnis AstraZeneca, þar af tvær alvarlegar.