Ekki hafa greinst ný tilfelli mislinga hér á landi síðustu daga. Samtals hafa sex tilfelli verið greind á undanförnum vikum, þar af er nítján mánaða drengur sem greindist með mislinga þremur vikum eftir bólusetningu. Þetta kom fram á fundi sóttvarnalæknis i morgun. 

Fréttablaðið greindi frá því á þriðjudaginn í síðustu viku að mikill viðbúnaður væri á Landspítalanum eftir að fjögur mislingasmit greidnust hér á landi á skömmum tíma. Þar af voru tvö börn sem smituðust í flugvél, annað hvort á leið til landsins með Icelandair þann 14. Febrúar, eða í flugi Air Iceland Connect þann 15. Febrúar frá Reykjavík til Egilsstaða. 

Samkvæmt frétt á vef Landlæknis eru 10 þúsund skammtar af bóluefni komnir til landsins og er vinnsla hafin við dreifingu þeirra um allt land. Sóttvarnalæknir hefur í samráði við umdæmis- og svæðislækna ákveðið að á svæðum þar sem mislingar hafa verið að greinast, eins og á Austfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu, þá verður lögð áhersla á að allir eða flestir óbólusettir á aldrinum 6 mánaða til 49 ára fái eina bólusetningu. 

Sjá einnig: Mikill við­búnaður á Land­spítala: Fjögur mislingasmit greind

Bólusettir einstaklingar á aldrinum 6-12 mánaða þurfa bólusetningu nr. 2 við 18 mánaða aldur. Eldri en 12 mánaða þurfa bara eina bólusetningu (og svo aftur við 12 ára).

Þá verður lögð áhersla á að útsettir einstaklingar fái bólusetningu innan 72 klst. eftir útsetningu fyrir mislingum til að minnka líkur á veikindum. Útsettir einstaklingar og náinn umgangshópur þeirra sem fer í sóttkví fái bólusetningu jafnvel þó að þeir hafi verið bólusettir áður.

Ekki stendur til að bólusetja einstaklinga eldri en 49 ára (fæddir fyrir 1970) þar sem miklar líkur eru á að þeir hafi fengið mislinga á sínum tíma. Á svæðum þar sem mislingar hafa ekki greinst er mælt með bólusetningu óbólusettra einstaklinga 12 mánaða og eldri (ekki 6-12 mánaða). Ekki er talin ástæða til að bólusetja börn yngri en 12 mánaða sérstaklega vegna ferðalaga erlendis, nema í undantekningartilvikum til landa þar sem mislingar eru algengir en eftirfarandi 10 lönd eru með hæstu tíðni mislinga skv. upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni: Madagaskar, Úkraína, Indland, Brasilía, Filipseyjar, Venesúela, Taíland, Pakistan, Yemen og Ísrael. Með ofangreindum tilmælum er ekki verið að breyta almennum bólusetningum á Íslandi. Reglubundnar bólusetningar gegn mislingum eru áfram við 18 mánaða aldur og seinni sprauta við 12 ára aldur. 

Sjá einnig: Fimmta mis­linga­smitið stað­fest