Bæjarmálafélagið Fyrir Heimaey fundar í þessum mánuði og ákveður hvort boðið verður fram á nýjan leik í vor. Árið 2018 vann listinn sögulegan sigur í kosningum, eftir klofning í Sjálfstæðisflokknum, og myndaði meirihluta með Eyjalistanum.

„Þetta hefur verið skemmtilegt og krefjandi verkefni. Ég reikna með að taka ákvörðun um framhaldið um eða eftir áramót,“ segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri um sína framtíð.

Bæði Íris og Njáll Ragnarsson, oddviti Eyjalistans, segja samstarfið hafa gengið vel og sjá fram á framhald, bjóði listarnir fram og fái umboð kjósenda. Njáll segist opinn fyrir því að leiða Eyjalistann sem einnig ákveður framboðsmál í þessum mánuði.

Sjálfstæðisflokkurinn tapaði meirihluta árið 2018 með aðeins 6 atkvæða mun eftir að hafa unnið næstum rússneskan sigur árið 2014, með 73 prósentum. Klofningurinn, sem varð til vegna prófkjörsmála, hefur markað kjörtímabilið og sérstaklega fyrstu árin því fundir hafa dregist á langinn og andrúmsloftið á þeim verið stíft.

Særindin persónuleg

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, jánkar því að særindin hafi verið persónuleg milli fylkinganna.

„Það hefur slegið í brýnu af og til á kjörtímabilinu,“ segir Hildur. „Sumir spáðu að listarnir myndu strax sameinast. En þau gáfu strax skýr skilaboð með því að mynda meirihluta með vinstrimönnum.“ Sér hún ekki fram á sameiningu.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er mikill vilji hjá forystu Sjálfstæðisflokksins á landsvísu til að hlutirnir í Eyjum verði lagaðir. Meðal annars hafi verið reynt að fá Pál Magnússon, fyrrverandi þingmann, til þess að bera klæði á vopnin. En hann var dreginn inn í deilurnar 2018 og vikið úr fulltrúaráði flokksins. Í dag eru Sjálfstæðismenn í Eyjum klofnir í afstöðu sinni til þess hvort þeir vilji sjá fylkingarnar sameinaðar eða ekki.

Alltaf tvö mál á oddinum

Í Eyjum eru alltaf tvö mál á oddinum; heilbrigðismál og samgöngur. Skylmingar við ríkið til að tryggja þjónustu sem er hvergi mikilvægari vegna landfræðilegra aðstæðna.

„Við erum ekki sátt við stöðuna á fluginu en það hafa orðið miklar bætur á nýtingu Landeyjahafnar,“ segir Íris. Þá sé verið að skila hjúkrunarheimilinu því ekki fylgdi nægt fjármagn. „Það var þyngra en tárum taki að skila rekstrinum því að mínu mati ættu sveitarfélögin að sjá um þetta. En við greiddum 500 milljónir fyrir ríkið á 10 árum sem er ekki boðlegt.“

Þrátt fyrir áskoranir í formi loðnubrests, faraldurs og þungra kjarasamninga sé reksturinn enn þá í plús, árið 2020 um 30 milljónir. „Stóra málið á næsta kjörtímabili er að gera Vestmannaeyjar að enn vænlegri kosti fyrir fólk og fyrirtæki. Við höfum skilað afgangi í öllum faraldrinum þrátt fyrir að hafa farið í gríðarlega miklar og þarfar framkvæmdir á kjörtímabilinu,“ segir Íris.

Njáll bendir á aðgerðir í skólunum á borð við snemmtæka íhlutun og spjaldtölvuvæðingu. „Við höfum fryst gjaldskrár og létt undir með fjölskyldufólki,“ segir hann. Stóra málið fyrir kosningarnar sé að halda áfram á þessari braut.

Stóra málið að mati Hildar er hins vegar að fjölga íbúum. „Við erum að glíma við aldursgat og að krakkarnir fara burt á námsárunum,“ segir hún. Hún segir Sjálfstæðismenn einnig ósátta við þenslu í kerfinu og að sífellt sé verið að búa til nýjar stöður. Flokkurinn hafi til dæmis mótmælt því harðlega að bæjarfulltrúum verði fjölgað úr 7 í 9 í vor.