Flugmenn skandinavíska flugfélagsins SAS hafa ákveðið að leggja niður störf. Danski ríkismiðillinn DR greinir frá.

Engin lending hefur náðst í kjaraviðræðum stéttarfélaga flugmanna og stjórnenda SAS og munu því rúmlega 900 flugmenn frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi leggja niður störf.

Verkfallið mun hafa mikil áhrif á flugsamgöngur en allt að 30 þúsund farþegar víða um allan heim gætu orðið strandaglópar á hverjum degi.

Á vef Isavia má sjá að öll flug SAS eru á áætlun enn sem komið er.

Flugfélagið hefur gefið út yfirlýsingu um að farþegar geti endurbókað flugið sitt ef það fellur niður vegna verkfalls.

Flug SAS til og frá Osló er enn á áætlun samkvæmt vef Isavia.
Fréttablaðið/EPA